Harmsaga þjóðkirkjunnar

Greinar

Kvörtun frá biskupi þjóðkirkjunnar hefur leitt til þess, að ríkissaksóknari er farinn að undirbúa málshöfðun gegn þekktum spaugurum ríkissjónvarpsins fyrir meint guðlast á laugardegi fyrir páska, er þeir fóru með orðaleiki og fimmaurabrandara á kostnað þjóðkirkjunnar.

Tilefni kvörtunarinnar er harla léttvægt, enda snerist grínið mest um utantrúaratriði, svo sem tvenns konar merkingu orða á borð við “Sýn” og “glataður”. Kvörtunin sýnir óeðlilega viðkvæmni þjóðkirkjunnar fyrir því, sem hún telur vera áreiti utan úr þjóðfélaginu.

Mál þetta bætist við langa röð atriða, sem eru til þess fallin að auka þreytu manna á þjóðkirkjunni sem stofnun. Það minnir á, að tímabært er að skilja milli ríkis og kirkju, svo að þjóðkirkjan fái að vera út af fyrir sig með endurteknar uppákomur eða endurreisn virðingar.

Þjóðkirkjan getur ekki einu sinni rekið kirkjugarða án þess að brjóta landslög um ólögmæta viðskiptahætti og fá á sig dóm af því tilefni. Hún tregðast við að framfylgja dómsúrskurði og verndar þar á ofan á jólum okurstarfsemi á þjónustu við aðstandendur látinna.

Sumir prestar standa í stöðugu þrasi við aðra presta, annað starfsfólk kirkna, söfnuði sína og umhverfi sitt yfirleitt. Ýmis mál, sem varða samskipti kennimanna við annað fólk, hafa orðið landsfræg á síðustu árum og skaðað stöðu þjóðkirkjunnar sem opinberrar ríkiskirkju.

Erfiðleikar sumra presta í umgengni við annað fólk byggjast að nokkru leyti á tilraunum þeirra til að túlka þjóðkirkjuna sem kennimannakirkju fremur en safnaðakirkju; að kennimenn eigi að stjórna söfnuðum. Þessi stefna dregur úr þjóðkirkjuþætti ríkiskirkjunnar.

Sem stofnun hefur þjóðkirkjan verið meira eða minna lömuð í rúmlega tvö ár vegna sérkennilegrar stöðu biskups, sem hefur smám saman verið á undanhaldi úr embætti og hefur sumpart reynt með litlum árangri að verja undanhaldið með aðstoð töffara úr lögmannastétt.

Ofan á aðra ógæfu leiddist biskupinn út í að brjóta trúnað á fólki í einum söfnuði Reykjavíkur og að höfða andvana fætt meiðyrðamál gegn nokkrum konum, sem áttu í útistöðum við hann. Þetta er að sjálfsögðu óbærilegt ástand í stofnun, sem kallar sig þjóðkirkju.

Virðingarleysið einskorðast ekki við samskipti þjóðkirkju og umhverfis hennar. Það er líka magnað innan kirkjunnar. Margir kennimenn áttu í útistöðum við biskupinn og sýndu honum virðingarskort áður en hann lenti í sviptingunum, sem leiddu til afsagnar hans.

Meðan innri og ytri deilur og almenn skapstyggð marka þjóðkirkjuna magnast auðvitað gengi safnaða utan þjóðkirkjunnar. Misheppnaðar tilraunir þjóðkirkjunnar til málaferla vegna meiðyrða eða fimmaurabrandara úti í bæ auka enn á niðurlægingu hennar.

Þjóðkirkjan hefur verið að reyna á þolrif þjóðarinnar á undanförnum árum. Erfitt er að sjá, að úr því verði bætt á annan hátt en með róttækri aðgerð á borð við þá, sem oft hefur verið nefnd, aðskilnaði ríkis og kirkju og tilheyrandi eignaskiptasamningi ríkis og kirkju.

Með aðskilnaði ríkis og kirkju geta núverandi söfnuðir í þjóðkirkjunni fengið að hafa áhrif á kristnihaldið og tekið upp aukna samkeppni við sértrúarhópa. Samkvæmt erlendri reynslu er slíkt líklegt til að efla trúarlíf, um leið og það eykur fjárhagslega ábyrgð safnaða.

Líklegt er, að raunverulegt trúfrelsi muni auka veg þeirra kennimanna, sem mest erindi eiga til þjóðarinnar og draga úr áhrifum hinna, sem skaða lúterstrú.

Jónas Kristjánsson

DV