Þótt hún sé ný, er Harpa farin að kosta mikið í viðhaldi. Frægt var, þegar skipta þurfti út glerkubbunum vegna gallaðrar framleiðslu. Síðan kom í ljós, að sumir nýju glerkubbarnir voru farnir að ryðga. Og nú er það loftræstikerfið, sem ógnaði Silfurbergi í nótt, þegar flæddi inn á loftið. Eitthvað virðist líka vera að litastýringunni, sem strax í upphafi minnti á bilaða jólaseríu. Og ekki má gleyma saltrokinu, sem leggst á veggina og gerir gluggaþvott að Kleppsvinnu. Hversu ánægjulegur sem hljómburðurinn er, þá virðist hönnun og smíði hússins vera gölluð á ýmsan hátt. Og ekki finnst mér Harpan vera fögur borgarprýði.