Hart í ári.

Greinar

Nýjustu mælingar sýna, að jöklar eru farnir að skríða fram að nýju eftir samdráttinn í hlýviðrinu um miðja öldina. Þetta framskrið mun aukast í kjölfar harðindaára á borð við það, sem nú stendur yfir, landsmönnum til mikils ama.

Allra næstu áratugina getum við ekki búizt við röðum mildra ára í líkingu við það, sem var um miðja öldina. Miklu frekar þurfum við að búa okkur undir að mæta röðum erfiðra ára með köldum vetrum og vætusumrum.

Í hinum hefðbundnu landbúnaði kúa og kinda og í garðyrkju utan gróðurhúsa jafngildir þessi loftslagsbreyting, að framleiðslubrestur verður mörg árin. Landið sem heild færist nær jaðri freðmýrabeltisins.

Þetta ár veldur bændum og skattgreiðendum þungum búsifjum. Ríkissjóður hefur veitt 15 milljónum króna í harðindastyrki til bænda og nú síðast 20 milljónum í niðurgreiðslur umfram áætlun á ársgömlu og illseljanlegu dilkakjöti.

Leitin að nýjum leiðum til að koma kinda- og kúabúskap til aðstoðar er að fá á sig hinar undarlegustu myndir. Nú síðast á að fella niður innflutningstolla og söluskatt af vélum og varahlutum til landbúnaðar.

Þetta er gert rétt áður en undanþágulaus virðisaukaskattur leysir söluskattinn af hólmi. Auk þess kallar það á kostnaðarsamt eftirlit með því, hvort innflutt dráttarvél sé notuð í landbúnaði eða í einhverri annarri starfsemi.

Allar slíkar gerðir eru sagðar í þágu neytenda, svo að verð landbúnaðarafurða hækki minna en ella. Sú hugsun byggir á sælli trú á, að neytendum og skattgreiðendum sé skylt að borga brúsann af fáránlegum landbúnaði.

Hinn hefðbundni landbúnaður kúa og kinda lafir í skjóli innflutningsbanns, tollmúra, útflutningsuppbóta, framkvæmdastyrkja, vildarlána, rekstrarstyrkja og niðurgreiðslna; – og borgar fyrir sig með ofbeit og landeyðingu.

Fyrir bragðið þurfa neytendur og skattgreiðendur að borga tvisvar sinnum meira fyrir osta og tíu sinnum meira fyrir smjör en þeir slyppu með, ef þeir fengju vörur frá landbúnaði, sem ekki kúrir við jaðar freðmýrabeltisins.

Ábyrgðarmenn landbúnaðarins segja mjólkurframleiðslu vera orðna of litla og kalla á flutning milli landshluta. Sannleikurinn er samt sá, að nærri helmingur mjólkurinnar fer í ýmsa vinnslu, þar á meðal í smjör og osta.

Ábyrgðarmenn landbúnaðarins segja, að sumir bændur muni gefast upp í þessu árferði. Með því rökstyðja þeir, að skattgreiðendur verði enn að leggja harðar að sér til að létta skuldabyrði hinna verst settu bænda.

Miklu nær væri, að skattheimta kinda- og kúabúskapar væri notuð til að hjálpa þessum bændum til að hætta tilgangslausu striti í óþökk þjóðarinnar og til að hefja annan og arðbærari búskap eða önnur störf, sem að gagni koma.

Ábyrgðarmenn landbúnaðarins hafa undanfarna áratugi hvatt til sívaxandi framleiðslu á kindakjöti og mjólkurvörum, þótt öll rök hafi lengi hnigið að því, að sem allra mest þyrfti að draga saman seglin á þessum sviðum.

Í staðinn eiga að koma búgreinar, sem standast íslenzkt veðurfar, svo sem fiskirækt, loðdýrarækt og ylrækt. Kominn er tími til að huga að hnattstöðu okkar og hætta að sligast undir framleiðslu, sem tekur meira en hún gefur.

Jónas Kristjánsson.

DV