Hátíð orgs og ælu

Greinar

Svo virðist sem eins konar manndómspróf að hætti náttúruþjóða fari fram á útihátíðum verzlunarmannahelgar. Þar gengur ungt fólk gegnum hreinsunareld, með tilheyrandi þjáningum, sem virðast vera taldar nauðsynlegur þáttur í æviskeiði Íslendings.

Sumir skríða um í spýju sinni og fleiri láta sér nægja hefðbundna timburmenn að þjóðlegum hætti. Þeir, sem hvorugu sinna, verða samt að þjást af meðvitundinni um ælandi og organdi umhverfi sitt, og borga sem svarar heildarverði helgarferðar til erlendrar heimsborgar.

Hátíðir af þessu tagi þekkjast lítið með öðrum þjóðum, þótt þær hafi auðvitað einhver önnur sérkenni í staðinn. Margt er það, sem greinir íslenzkar útihátíðir frá erlendum, en einkum er það ótæpileg neyzla eiturefna á borð við áfengi, sem sker í augu áhorfenda.

Íslenzkar útihátíðir eru orðnar nógu þekktar í útlöndum til að seiða til sín sveit brezkra útvarpsmanna, sem verða að sæta þeim takmörkunum að geta aðeins tekið upp orgið, en ekki sýnt spýjuna. Næsta skref verður að selja útlendingum aðgang að hinni súru og beizku gleði.

Erlendis er til siðs við neyzlu áfengis, að menn reyna að halda haus og hafa vald á hreyfingum sínum og framburði. Hér er hins vegar komin hefð á, að drukkið fólk megi og eigi að slangra um meira eða minna máttlaust og hafa uppi óskiljanlegt muldur, org og vein.

Útihátíðirnar eru partur af þeirri íslenzku hefð að nota svo mikið magn eiturefna á svo stuttum tíma, að menn umhverfist fyrst, missi síðan ráð og rænu og endi í sársaukafullum eftirköstum. Þetta sjá löggæzlumenn og sjúkraliðar um hverja einustu helgi ársins.

Áður voru hvítasunnur helztu hátíðir þessarar hefðar, en hin síðari ár hefur hápunkturinn færst yfir á verzlunarmannahelgar, sem soga ungt fólk þúsundum saman á afmörkuð drykkjusvæði til sveita. Nú er ein slík blessunarlega afstaðin, tiltölulega slysalítil.

Eitthvað er það í íslenzkri þjóðarsál, sem kallar á þátttöku í þjáningum verzlunarmannahelgarinnar. Ef til vill eru ungir Íslendingar svo miklu lokaðri en ungt fólk í öðrum löndum, að þeir þurfi á útrásum af þessu tagi að halda til að halda sönsum afganginn af árinu.

Augljóst er, að grófir drykkjusiðir Íslendinga eru þáttur í þessu. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra sýna fordæmi með því að koma áberandi ölvaðir fram í sjónvarpi. Hversdagslegt, fullorðið fólk fylgir á eftir með drykkjuólátum á heimilum sínum og hvað annars.

Ísland er brennimerkt fylliríi. Víman er svo mikill þáttur þjóðlífsins, að hún hefur áhrif á stjórn landsins, stjórn fyrirtækja og stjórn heimila. Hvarvetna má sjá, að fólk hefur misst þessa stjórnartauma úr höndum sér vegna ótæpilegrar notkunar vímuefna, einkum áfengis.

Langsiðaðar þjóðir í sunnanverðri Evrópu haga sér ekki svona, þótt vín sé þar víðast hvar innan seilingar. Við erum skammsiðaðir í samanburði við þær, þótt við séum ekki eins nýir í siðmenningunni og til dæmis Grænlendingar, sem hafa enn stærri áfengisvandamál.

Hér á landi skortir almenningsálit, sem lítur niður á draf og slangur, org og ælu, skemmdarverk og barsmíðar, svo og aðra fylgifiska mikillar og hraðrar notkunar eiturefna. Sumar útihátíðir verzlunarmannahelgarinnar sýna í hnotskurn þessa vöntun í þjóðarsálina.

Hér skortir almenningsálit, fyrirmyndir og uppeldi, sem fælir ungt fólk frá auðséðum þjáningum útihátíðanna og beinir orku þess inn á gleðilegri brautir.

Jónas Kristjánsson

DV