Hatur á höfuðborg

Greinar

Iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins hefur lagt sig í líma við að tefja mikla stækkun álversins við Grundartanga, svo að hún leiði síður til frekari frestunar álvers í Reyðarfirði, sem er flokknum mjög hjartkært, enda er það lengra frá hinu mjög svo hataða höfuðborgarsvæði.

Norðurál við Grundartanga afkastar núna 90 þúsund tonnum af áli á ári. Leyfi er fyrir 90 þúsund tonna afköstum til viðbótar, en ráðamenn fyrirtækisins vilja stækka það upp í 300 þúsund tonna afköst. Til þess þarf nýtt umhverfismat, sem ráðherra hefur komið í veg fyrir.

Ráðamenn Norðuráls eru þekktir fyrir að ganga rösklega til verka. Stuðningsmenn Reyðaráls óttast, að mikil og ör stækkun Norðuráls muni leiða til, að ekki verði talið efnahagslega ráðlegt að reisa umdeilt Reyðarál á sama tíma vegna ofþenslu í framkvæmdum í landinu.

Engar efnislegar ástæður eru fyrir framferði ráðherrans. Norðurál er hagkvæmur stóriðjukostur, sem veldur miklu minni umhverfisdeilum en Reyðarál, er kallar á flutning tuttugu fallvatna milli farvega og gríðarlega stíflu og lón með afar breytilegu vatnsyfirborði.

Valgerður Sverrisdóttir er ekki að vinna fyrir þjóðina í ráðuneytinu, heldur gegn henni. Hún er að reyna að tefja hagkvæmar framkvæmdir við höfuðborgarsvæðið, svo að umdeildar framkvæmdir í strjálbýlinu fái forgang. Hún er dæmi um ofbeldishneigðina í höfuðborgarhatrinu.

Ráðherrar Framsóknarflokksins eru ekki einir um að reyna að níða skóinn niður af höfuðborgarsvæðinu. Samgönguráðherra hefur lagt sig fram við að fresta framkvæmdum við mislæg gatnamót á því svæði, svo að þau sogi ekki peninga frá jarðgöngum gegnum fjöll.

Engar efnislegar ástæður eru fyrir framferði ráðherrans. Mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu stuðla að hagkvæmni í flutningum mjög margra og draga þar að auki úr slysum, en jarðgöngin eru ákaflega dýr og hafa ekki nema brotabrot af nýtingu gatnamótanna.

Efnahagslega er augljóst, að þjóðin hefur meira gagn af mislægum gatnamótum Miklubrautar og nokkurra þverbrauta hennar, svo og mislægum gatnamótum Reykjanesbrautar og nokkurra þverbrauta hennar heldur en af jarðgöngum í fjöllum milli afskekktra héraða.

Sturla Böðvarsson er ekki að vinna fyrir þjóðina í ráðuneytinu, heldur gegn henni. Hann er að reyna að tefja hagkvæmar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, svo að umdeildar framkvæmdir í strjálbýlinu fái forgang. Hann er dæmi um ofbeldishneigðina í höfuðborgarhatrinu.

Hvar í flokki sem þeir standa vinna ráðherrarnir gegn hagsmunum þess rúmlega helmings þjóðarinnar, sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Þeim er hjartanlega sama um, að fólk á þessu svæði missi vinnuna, þegar þeir eru að flytja opinberar stofnanir með handafli á afskekkta staði.

Þeim er líka hjartanlega sama um, að þessar stofnanir verða lélegri þjónustustofnanir en þær voru áður vegna aukins skorts á sambandi þeirra við fólk. Þeir líta ekki á opinberar stofnanir sem þjónustu, heldur aðferð við að útvega störf í kjördæmum, sem þeim eru hjartkær.

Alveg er líka sama, hvort Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsóknarflokkurinn á mann í stöðu landbúnaðarráðherra. Allir kappkosta þeir að okra á fólki í skjóli landbúnaðareinokunar, af því að það býr flest á höfuðborgarsvæðinu og telst því ekki menn með mönnum.

Furðulegt er, að kjósendur á höfuðborgarsvæðinu skuli áratug eftir áratug láta þessa tvo stjórnmálaflokka komast upp með markvisst hatur á höfuðborgarsvæðinu.

Jónas Kristjánsson

DV