Hauksdalur

Frá Hrafnseyri í Arnarfirði um Hauksdal til Ketilseyrar í Dýrafirði.

Á Hrafnseyri bjó Hrafn Sveinbjarnarson, einn af höfðingjum Sturlungaaldar og mestur læknir þess tíma, átti í deilum við Vatnsfirðinga og féll í bardaga á Hrafnseyri, sem þá hét Eyri. Í sögu hans segir: “Til einskis var honum svo títt, hvorki til svefns né matar, ef sjúkir menn komu á fund hans, að eigi mundi hann þeim fyrst nokkra miskunn veita. Aldrei mat hann fjár lækning sína. Við mörgum mönnum vanheilum og félausum tók hann, þeim er þrotráða voru, og hafði með sér á sínum kostnaði, þangað til þeir voru heilir.” Jón Sigurðsson forseti fæddist á Hrafnseyri og ólst þar upp. Þar er nú safn til minningar um hann.

Förum frá Hrafnseyri norður dalinn að austanverðu og beygjum til austurs inn Hauksdal og um Fossabrekku norðaustur fjallið í 660 metra hæð. Síðan norðnorðaustur og niður í Ketilseyrardal og norður dalinn að Ketilseyri í Dýrafirði.

13,6 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Lokinhamrar, Glámuheiði

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort