Símaviðskiptavinir þurfa oft að bíða nokkra stund eftir samtali í símakerfi fyrirtækja og stofnana. Þeir eiga í auknum mæli á hættu að sæta áreitnum og skipulegum hávaða meðan þeir bíða. Hávaðinn kemur yfirleitt frá útvarpsstöðvum, sem tengd eru símakerfum.
Þetta virðist fyrst og fremst gert, af því að tæknin gerir það kleift. Ekki stafar þetta af því, að viðskiptavinir telji þetta þægilegt eða telji þögnina svo óþægilega, að þeir taki áreitinn og skipulegan hávaða fram yfir hana. Ótti við þögn er ennþá minnihlutaeinkenni.
Að vísu er sumt fólk, einkum ungt fólk, svo innantómt og háð áreitnum og skipulegum hávaða, að það fer að titra af taugaveiklun, ef það heyrir þögn. Slíkir fíklar róast ekki fyrr en sett er í gang útvarpstæki eða annað tæki, sem framleiðir áreitinn og skipulegan hávaða.
Þetta kemur niður á hinum óbrengluðu. Ekki er einu sinni friður fyrir hávaðafíklum í heilsuræktarstöðvum, þar sem þreyttir félagsmenn stéttarfélaga endurhæfa sig með líkamlegri þjálfun. Stjórnendur slíkra stöðva ganga í lið með hávaðafíklum gegn eðlilegu fólki.
Þetta gera þeir með því að útvarpa sjálfir þessum áreitna og skipulega hávaða og með því að veita aðgang að útvarpstækjum, þar sem þeir ráða ferðinni, er vilja skrúfa hávaðatakkana sem hæst, þótt þeir séu í miklum minnihluta meðal viðstaddra viðskiptavina.
Fólk þarf að átta sig á, að eðlilegt og upprunalegt ástand felst í þögn og ýmsum óhjákvæmilegum hljóðum, svo sem brimgný, goluþyt og lækjanið, en að hinn áreitni og skipulegi hávaði úr útvarps- og hljómflutningstækjum er mengun á hinu eðlilega og upprunalega ástandi.
Á tímum tæknialdar er engin ástæða til að þurfa að þola slíka hávaðamengun. Með vasatækjum, sem kosta 2000-4000 krónur, og heyrnartækjum, er kosta 100-200 krónur, getur hver, sem óskar eftir fráviki frá þögn, haft þann hávaða, er hann kærir sig helzt um.
Í fyrirtækjum og stofnunum, þar sem sumir starfsmenn og viðskiptamenn vilja áreitinn og skipulegan hávaða, ættu þeir að geta öðlazt hann með hjálp slíkra tækja og án þess að trufla hina, sem enn eru óbrenglaðir að þessu leyti. Þannig er víða tekið á málinu.
Fráleitt er að telja rétt hávaðafíkla meiri í samfélaginu en hinna. Fráleitt er að hafa á almannafæri tæki, sem menn geta gengið í til að framleiða áreitinn og skipulegan hávaða. Og fráleitt er að útvarpa slíkum hávaða um opin hátalarakerfi eða inn á símalínur.
Á þeim stöðum, þar sem búast má við komu fólks, er sækist eftir áreitnum og skipulegum hávaða og getur ekki án hans verið, er hægt að selja 2000 króna vasatæki með einnota, 100 króna heyrnartólum, svo að það trufli ekki annað fólk með hávaðafíkn sinni.
Eðlilegt er og fyllilega tímabært, að um áreitna og skipulega hávaðamengun séu settar reglur á borð við aðrar reglur um mengunarvarnir. Það er verðugt verkefni fyrir aðgerðalítið umhverfisráðuneyti, ef það nennir að sinna öðru en ferðaþjónustu til Rio de Janeiro.
Á meðan er rétt, að eðlilegt fólk beiti þrýstingi í málinu með því að draga úr viðskiptum við fyrirtæki og stofnanir, sem varpa áreitnum og skipulegum hávaða um sali og símalínur og jafnvel út á stéttar, en beina þeim að fyrirtækjum, sem virða rétt fólks til þagnar.
Við megum ekki vera svo þjökuð af aldagamalli kúgun, að við gefum hávaðafíklum bardagalaust eftir einn af mikilvægari þáttunum í friðhelgi einkalífsins.
Jónas Kristjánsson
DV