Hefðarréttur hestaferðamanna

Hestar

Dönsku herforingjaráðskortin með ótal reiðleiðum eru grundvallarheimild um, hvað séu hefðbundnar reiðleiðir, sem njóta lagaverndar, allt frá Jónsbók ársins 1281 yfir í náttúruverndarlög ársins 1999. Það segir Sigurður Líndal lagaprófessor. Réttarstaða hestaferðamanna er betri en margir hafa talið, þótt lítið hafi verið látið á hana reyna fyrir dómstólum. Það er til dæmis varla löglegt að banna rekstur hrossa um Þjórsárbakka. Samtök hestamanna hafa látið undir höfuð leggjast að verja hefðarrétt hestaferðamanna á gömlum götum og slóðum, svo að hann kann að hafa fallið niður á mikilvægum leiðum.