Upphlaupið í Atlantshafsbandalaginu flýtir fyrir hægu andláti þess. Evrópusambandið er að byrja að yfirtaka síðasta verkefni bandalagsins í Evrópu, friðargæzlu á Balkanskaga, og er farið að undirbúa 60.000 manna evrópska hersveit í viðbragðsstöðu. Stjórnir Frakklands, Þýzkalands og Belgíu viðurkenna ekki, að Tyrklandi stafi hætta af Írak eins og er. Í bandaríska hermálaráðuneytinu er þetta sjónarmið sagt vera upphafið að endalokum bandalagsins. Þar er farið að undirbúa samdrátt í herafla Bandaríkjanna í Evrópu, einkum í Þýzkalandi. Ráðamenn Bandaríkjanna og talsmenn þeirra kasta linnulaust skít í ráðamenn Frakklands og einkum Þýzkalands, rétt eins og aldrei þurfi að tala við þá aftur á diplómatískum nótum. Allt stefnir þetta að dapurlegum endalokum fornfrægrar stofnunar, sem átti sína dýrðardaga, en hefur nú lokið hlutverki sínu.