Heiðardalsvegur

Frá Fjallsenda í Mýrdal um Heiðardalsveg að Kerlingardal í Mýrdal.

Þetta er fín leið fyrir sportreið.

Sumarfögur leið um innilokaðan fjallasal norðan Víkur í Mýrdal. Leiðin liggur frá þjóðvegi 1 norðan Víkur og að sama þjóðvegi við Höfðabrekku austan Víkur. Fara má beggja vegna Heiðarvatns, en hefðbundna leiðin er sú, sem hér er lýst. Helzta skart leiðarinnar er fagurblátt heiðarvatnið. Á Vatnshálsi eru sérkennilegir hellar og skútar. Á Kerlingardalsáraurum er meira eða minna riðið niður árfarveginn sjálfan. Fyrrum var farið með flutninga á hestum þessa leið frá Eyrarbakka áður en verzlun hófst í Vík í Mýrdal um aldamótin 1900. Var farið upp úr Kerlingardalsflötum austur yfir Flataskarð, vestan við Kamb og síðan suður fyrir hann. Áfram austur um Núpamýrar að Núpakambi og niður hann að Múlakvísl á vaði. Þaðan lá leiðin austur yfir Mýrdalssand, áður en verzlun hófst í Vík í Mýrdal um aldamótin 1900.

Byrjum við þjóðveg 1 um Fjallsenda, 4 km. norðan Víkur í Mýrdal. Við fylgjum vegi austur að bæjunum Stóru- og Litlu-Heiði. Frá Litlu-Heiði förum við austur eftir jeppaslóð yfir mýrar og um Vatnsársund norðan við Vatnsháls. Beygjum við Vatnsháls til suðurs og förum eftir grasflötum og síðan aurum Kerlingardalsár að Kerlingardal og síðan með bílvegi suður að Höfðabrekku.

12,8 km
Skaftafellssýslur

Nálægir ferlar: Höfðabrekkuheiði.
Nálægar leiðir: Heiðarvatn, Arnarstakksheiði, Mýrdalssandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson