Gömul regla blaðamennsku er að skilja að ritstjórnarefni og auglýsingar. Lesandinn, hlustandinn, áhorfandinn vita um mörkin. Sjónvarpið skar gat á regluna með “kostun”. Auðvaldið var hvatt til að kosta hitt og þetta efni. Þar með jókst framleiðsla efnis fyrir auðvaldið og minnkaði fyrir venjulega notendur. Svo er komið, að íþróttafélög kaupa umfjöllun í ríkissjónvarpinu fyrir 300.000 króna mútur. Við bætast laumuauglýsingar, þar sem þáttastjórar Stöðvar 2 sitja í mynd með gosflöskur fyrir framan sig. Ég veit ekki, hversu háar múturnar eru eða hverjir fá þær. Heiðarleg blaðamennska bíður hnekki.