Tvær stærstu og grónustu heiðar landsins eru í Norður-Þingi, Melrakkaslétta og Búrfellsheiði. Ég hef riðið um þær báðar. Sú síðari er merkari fyrir þá sök, að henni hefur ekki verið spillt með jeppaslóðum. Hún er nánast alveg veglaus frá Fjallalækjarseli í Þistilfirði upp að Heljardalsfjöllum ofan við Víðirhól á Fjöllum. Flæmið mikla er algróið, þótt fjöll standi stök upp úr heiðinni á nokkrum stöðum. Heiðin er svo fáfarin, að þar hafa varla mótast hestagötur, við töltum mest eftir kindaslóðum. Fjarlægð menningarinnar og spillingarinnar er óendanleg. Kyrrð og kvak, lyng og lykt, jarm og jóreykur.