Heiðin, veraldleg og kristin

Greinar

Nikulás biskup af Amsterdam hefur fyrir löngu verið gerður að rauðklæddum gosdrykkjasveini og sendur til Finnlands, þar sem hann stundar leikfangasmíðar utan annatímans. Mörg erlend börn vita svo mikið um biskupinn, að þau kunna nöfnin á hreindýrum hans.

Hér á landi þekkja börnin ekki finnsku hreindýrin, enda hefur Nikulás samlagast heiðnum og skrítnum leppalúðum innlendum, sem ösla snjóinn fótgangandi, ef þeir eru ekki komnir á jeppa. Undir rauðri skikkju leynist heiðinn trúður með lélega söngrödd.

Íslenzkri þjóðtrú hefur tekizt að breyta útlendum alvörukörlum í trúða. Íslenzki jólasveinninn hoppar og híar umhverfis jólatré, Lykla-Pétur varð að vitgrönnum verði Gullna hliðsins og skrattinn sjálfur varð að lélegum hagyrðingi, sem fór halloka fyrir kraftaskáldum.

Heiðin náttúrudýrkun jólanna leynir sér ekki í jólatrjám og jólasveinum, þótt jólakötturinn sjálfur sé löngu fyrir bí. Heiðnin hefur þó látið undan síga fyrir veraldlegum þætti jólanna, sem endurspeglast mest og bezt í ljósadýrð, sem nú hefur slegið fyrri met.

Rafmagnstækni nútímans hefur fært okkur ódýrari leiðir til að lýsa upp skammdegið og fagna því, að stytztur dagur er að baki og að framundan er löng röð daga, þar sem sérhver er lengri en sá, sem á undan fór. Framar öllu eru jólin veraldleg hátíð ljósanna.

Þjóðum norður undir heimskautsbaug er brýnt að stytta sér skammdegið með jólum. Það gerðu þær löngu fyrir kristni, mest í mat og drykk, bæði fyrr og síðar. Lútum við nú leiðsögn valinkunnra brandarakarla, sem gæfu hangikjöti sex stjörnur, ef þær væru til.

Tilstand jólanna rýfur skammdegið, þegar það er svartast, lýsir umhverfið fögrum ljósum og leyfir okkur að stunda þá erfðasynd, sem við kunnum eina að nokkru gagni, ofátið. Þannig er þunglyndi vikið úr vegi, þegar lotunni lýkur upp úr áramótum og farið að birta.

Að baki alls þessa leynast kristnir þættir, bæði kaþólskir og lúterskir. Fyrsta má telja helgisiðina, sem einkum eru framdir í kirkjum og fullvissa okkur um, að allt sé í sömu skorðum og áður var og verði svo um ókomna tíð. Ytri formin vekja okkur traust og vissu.

Hér er innihald líka að baki, þótt það tengist aðeins óbeint helgihaldi í kirkjum. Þjóðin hefur öldum saman verið eins kristin að innræti og hver önnur þjóð á Vesturlöndum, þótt munklífi eða helgra manna háttur hafi ekki fallið að skaplyndi okkar á síðustu öldum.

Hinn vestræni nútími er svo nátengdur vestrænni kristni, að margir fræðimenn efast um, að austurkristnum þjóðum og þjóðum annarra trúarbragða takist fyllilega að feta í auðsældarfótspor Vesturlanda. Rússland og arabaríkin eru höfð til marks um þennan vanda.

Vestræn siðalögmál nútímans, sem hafa nýtzt frábærlega í viðskiptum og öðrum samskiptum, eru að vísu hugsanleg án kristni og voru til fyrir kristni, en í raun hafa þau orðið nátengd trúnni og öðlast meiri dýpt og meiri útbreiðslu fyrir aldalangt tilstilli hennar.

Að baki trúar á huldufólk og álfa, tröll og jólasveina, innan um forspár okkar í kaffibollum og samtöl okkar við látna á miðilsfundum, glittir víða í einfalda barnatrú, sem hefur reynst mörgum betri en ýmis hálmstrá og jafnvel reynst bezta haldreipi, þegar gefur á bátinn.

Þannig höldum við um þessar mundir ekki aðeins heiðin og veraldleg jól, heldur einnig kristin jól. Megi sá þáttur verða allra þátta drýgstur í jólahaldi okkar.

Jónas Kristjánsson

DV