Heiðursmenn brugga launráð

Greinar

Samkvæmt tölvupósti milli banka hafa staðið viðræður milli félagsmálaráðuneytisins, bankanna og Húsnæðisstofnunar um, að stofnunin taki að sér að hækka lántökugjöld, svo að bankarnir þurfi ekki að gera það, þegar þeir taka við hluta af rekstri húsbréfakerfisins.

Í viðtali við DV sagði aðstoðarmaður ráðherra, að hingað til hafi nýir lántakendur borið allan kostnað, en ekki þeir, sem síðar yfirtaka lánin. Sanngjarnt væri að dreifa þessum kostnaði yfir á stærri hóp allra þeirra, sem einhvern tíma koma að greiðslu lánanna.

Þetta eru falsrök. Hugmynd þeirra, sem hafa unnið að svokölluðu heiðursmannasamkomulagi málsaðila um gjaldtökuna, er að bæta nýjum álögum á lántakendur, en ekki að færa álögur milli lántakenda. Enda er kerfið allan lánstímann smám saman að rukka lántökugjaldið.

Málið er einfalt. Bankarnir vilja grípa gæsina, þegar þeir taka að sér hluta húsbréfakerfisins. Þeir vilja búa til sérstakan tekjupóst til viðbótar við þær tekjur, sem þeir mundu að öðru leyti hafa af húsbréfunum. Þeir vilja hins vegar losna við óvinsældir af nýrri gjaldheimtu.

Samkvæmt tölvupóstinum hefur ráðuneytið lagt til, að málið verði leyst með því, að Húsnæðisstofnun taki á sig óvinsældir gjaldheimtunnar áður en bankarnir taka við dæminu, svo að þeir geti yppt öxlum gagnvart viðskiptamönnum sínum og bent á aðra ábyrgðaraðila.

Engin efnisleg rök eru fyrir auknum álögum á húsbréf. Markmið yfirfærslu bréfanna frá Húsnæðisstofnun til bankanna er að koma á einfaldara kerfi, sem kostar minna en núgildandi kerfi. Þess vegna eiga álögur að lækka við flutninginn, en alls ekki að hækka.

Málið sýnir í hnotskurn lítið brot af samsæri valdastofnana þjóðfélagsins gegn þjóðinni. Bankarnir mynda öflugan fáokunarhring og hafa með sér samráð um að hefta samkeppni og gera heldur heiðursmannasamkomulag um að maka krókinn sameiginlega.

Þetta er dæmigerður fáokunarhringur eins og er hér á landi meðal annars í samgöngum, tryggingum, búvörudreifingu og olíuverzlun. Vegna smæðar markaðarins einnar út af fyrir sig er meira um slíka fáokun hér á landi en víðast hvar á Vesturlöndum.

Til viðbótar kemur svo tilhneiging ríkisvaldsins til að reka erindi fáokunarhringa gegn almannahagsmunum. Fáokunarhringarnir eru fremstir í flokki margfrægra gæludýra kerfisins. Þeir hafa beinan aðgang að ráðamönnum landsins í þjóðfélagi kunningsskaparins.

Bankarnir hafa þá óskastöðu í kerfinu að lúta stjórn fyrrverandi stjórnmálaforingja, sem hafa betri aðgang en aðrir að núverandi stjórnmálaforingjum. Þetta pólitíska strákafélag nota bankarnir til að framleiða heiðursmannasamkomulag um að létta sér lífið.

Afleiðingin er, að íslenzka bankakerfið veltist um í offitu. Það er helmingi dýrara í rekstri en bankakerfi Vesturlanda. Ef heilbrigð samkeppni ríkti hér á landi og allt væri með felldu að öðru leyti, gætu bankarnir lifað góðu lífi af miklu minni tekjum en þeir hafa núna.

Séríslenzka fáokunarkerfið er þjóðinni dýr byrði. Eitt brýnasta verkefni stjórnmálanna er að skera upp herör gegn þessu óhagkvæma hagkerfi og brjóta fáokunina á bak aftur, svo að þjóðin fái svipað út úr striti sínu og þær þjóðir fá, sem eru að öðru leyti á svipuðu róli.

Spillingarfnykinn leggur langar leiðir af tölvupósti fáokunarkerfisins og félagsmálaráðuneytisins. Þar er valdastéttin að undirbúa sjónhverfingar og gera fjárhagslegt samsæri gegn fólkinu í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV