Heilir og hálfir kjósendur.

Greinar

Málamiðlun stjórnmálaflokkanna í kjördæmamálinu slakar lítið á spennunni, sem misvægi atkvæðisréttar hefur hlaðið upp á nýjan leik eftir lagfæringuna árið 1959. Málamiðlunin gengur of skammt til að endast lengi.

Margir fylgjendur jöfnunar atkvæðisréttar eru tilbúnir að kaupa samstöðu allra stjórnmálaflokkanna því verði, sem nú er að verða ofaná, það er að atkvæðisréttur verði 2,6 sinnum gildari á Vestfjörðum en í Reykjavík.

Á mánudaginn gerði þingflokkur framsóknarmanna atlögu að málamiðluninni með því að krefjast afgreiðslu bráðabirgðalaganna margfrægu í síðasta lagi í dag, á miðvikudegi. Þetta var tilraun til að knýja fram þingrof.

Þingflokkurinn gerði þetta í voninni um, að bráðabirgðalögin yrðu felld og þingrof yrði þar af leiðandi yfirvofandi, án þess að tími ynnist til að ganga frá samkomulagi um minnkun á misvægi atkvæðisréttar eftir búsetu.

Þetta kann að leiða til gamalþekktrar niðurstöðu, að hinir stjórnmálaflokkarnir leiðrétti málið gegn atkvæðum Framsóknarflokksins, sem léki þá ekki lengur tveimur skjöldum eins og hann hefur leikið að undanförnu.

Ef Framsóknarflokkurinn verður utan samkomulags, mun svo fjölga þeim, sem telja málamiðlunina ná of skammt. Of dýrt sé að þola 2,6-falt misvægi, ef flokkurinn verði eigi að síður á móti lagfæringunni.

Í skoðanakönnun DV í vetur kom í ljós, að 82% þeirra, sem svöruðu, vildu jafnan atkvæðisrétt. Utan suðvesturhornsins var líka mikill meirihluti með jöfnun, meira að segja í sveitum landsins, sem nú njóta misvægisins.

Niðurstaðan sýnir, að þjóðin sem heild telur jöfnun atkvæðisréttar vera sanngirnismál, hafið yfir hagsmuni einstakra landshluta eða tegunda byggða. Hún sýnir, að þjóðin sem heild vill, að allir hafi fullgild atkvæði.

Fyrir munn landsbyggðarinnar tala því ekki þeir, sem á opinberum vettvangi verja misvægið með því að rekja margvíslegan annan hag íbúa þéttbýlis, einkum á suðvesturhorninu, sem vegi á móti skertum atkvæðisrétti þeirra.

Slík rök eru raunar málinu ekki viðkomandi. Fáum eða engum dettur í hug að mæla með skertum atkvæðisrétti tekjuhárra manna, af því að önnur aðstaða þeirra í lífinu sé betri en þeirra, sem lægri hafa tekjurnar.

Fáum eða engum dettur heldur í hug að mæla með, að karlar hafi minni atkvæðisrétt en konur, af því að önnur aðstaða þeirra sé betri, né heldur að langskólagengnir hafi af sömu ástæðum minni atkvæðisrétt en hinir lítt skólagengnu.

Hver maður hlýtur að eiga rétt á heilu atkvæði, hver sem er búseta hans, alveg eins og hver sem er efnahagur hans eða tekjur, kyn eða aldur, skólaganga eða atvinnugrein. Þessa forsendu lýðræðis viðurkennir allur þorri manna.

Til bráðabirgða munu menn ef til vill sætta sig við minnkun misvægis atkvæðisréttar úr 5-földu í 2,6-falt, en það verður skammvinn slökun á spennu, sérstaklega ef sú málamiðlun felur ekki einu sinni í sér stuðning Framsóknarflokksins.

En hvaða rök eru svo fyrir 2,6-földu misvægi frekar en einhverju öðru? Er það nokkuð annað en rangt áætlað verð á stuðningi Framsóknarflokksins? Að honum frágengnum, af hverju ekki fullan jöfnuð? Er það óhóflegt lýðræði að mati þingmanna?

Jónas Kristjánsson

DV