Heilsuskömmtun

Greinar

Sumum deildum sjúkrahúsa er lokað um tíma til sparnaðar, en öðrum ekki. Á sumum sviðum skurðlækninga eru biðlistar, en ekki á öðrum sviðum. Sumir fá ókeypis aðgang að sjúkrahúsum, en aðrir taka þátt í kostnaði við þjónustu, sem þeir fá utan sjúkrahúsa.

Orðið er deginum ljósara, að margvísleg skömmtun hefur verið tekin upp í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Augljósust er sú, sem tengd er samdrætti í rekstri sjúkrahúsa, en hún einkennir líka önnur svið heilbrigðismála. Ríkisfjárlög fela til dæmis í sér forgangsröðun.

Skömmtunin og forgangsröðunin stafa af, að þjóðfélagið telur sig ekki lengur geta staðið undir sjálfvirkri stækkun heilbrigðisgeirans á kostnað annarra þátta í rekstri þjóðfélagsins. Á sama tíma fjölgar stöðugt ýmsum kostnaðarsömum, en freistandi lækningamöguleikum.

Deilan um rekstur og kostnað hundrað milljón króna segulómsjár er angi þessum vanda. Enn fremur umræða um notkun á nýju lyfi, þar sem hver skammtur kostar tugi þúsunda króna. Víða er verið að taka erfiðar ákvarðanir, sem verða örlagavaldar í lífi einstaklinga.

Skömmtunin hefur magnað baráttu innan kerfisins um skiptingu hins takmarkaða fjármagns. Einn yfirlæknirinn fullyrti nýlega, að lokanir kæmu óeðlilega hart niður á geðdeildum. Á öðrum stað var sagt, að barnadeildum væri lokað til að auglýsa vandamál sjúkrahúsa.

Hreinsa þarf andrúmsloftið og búa til skilgreindar forsendur fyrir skömmtun og annarri forgangsröðun í heilbrigðisgeiranum. Skilgreina þarf almenn þjónustumarkmið og ýmis sérhæfð þjónustumarkmið og reyna að mæla nýtingu fjármagns út frá slíkum markmiðum.

Okkur vantar skilgreindar forsendur fyrir hlutföllum fjármagns til einstakra höfuðþátta heilbrigðismála, svo sem milli forvarna og sjúkrahúsmeðferðar. Okkur vantar líka skilgreinar forsendur fyrir slíkum hlutföllum milli mismunandi þjónustufrekrar sjúkrahúsmeðferðar.

Smíði slíkra forsendna hlýtur fyrst og fremst að vera heilsupólitískt verkefni, þar sem ráðuneyti og þingnefnd heilbrigðismála hafa frumkvæði og kalla til sérfræðilega kunnáttu eftir þörfum, ekki bara læknisfræðilega, heldur líka hagfræðilega, stærðfræðilega og siðfræðilega

Forsendurnar þurfa að vera svo víðtækar, að þær taki ekki aðeins mið af fjárhagsdæmi ríkissjóðs, heldur heildardæmi þjóðfélagsins. Forvarnir eru til dæmis þjóðfélaginu mikilvægar, þótt erfitt sé að skilgreina hag ríkissjóðs af þeim, nema þá að litið sé til langs tíma.

Framkvæmd þessara forsendna í formi forgangsröðunar og skömmtunar getur verið blanda af pólitísku og faglegu verkefni eftir umfangi og aðstæðum hverju sinni. Það getur til dæmis aðeins verið faglegt verkefni að velja milli sjúklinga, þegar forgangsröðunin er framkvæmd.

Öll er þessi hugsun nýstárleg og óþægileg, en nauðsynleg eigi að síður. Liðin er sú tíð, að þjóðarbúið stækkaði svo ört, að það gat rúmað ört vaxandi kostnað heilbrigðismála. Að undanförnu hefur ríkt efnahagsleg stöðnun og á næstu árum verður hagvöxtur afar hægur.

Skömmtun í heilbrigðismálum er raunveruleiki líðandi stundar, hvort sem fólki líkar betur eða verr. Vont er, að hún verði áfram tilviljanakennd og umdeilanleg eins og nú er. Betra er, að hún hvíli á skilgreindri forgangsröðum, sem eigi sér skilgreindar forsendur.

Mikil mannaskipti hafa orðið í heilbrigðisráðuneytinu. Þar með er komið tækifæri til að móta þar vettvang fyrir frumkvæði að eðlilegri framvindu þessa máls.

Jónas Kristjánsson

DV