Hagfræðideild Alþýðusambandsins hefur reiknað upp verðkannanir og komizt að raun um, að stjórnvöld hafi með ofurtollum á grænmeti aukið skuldir heimilanna um 1,3 milljarða króna á síðustu tveimur árum. Nú þurfi að hækka laun um 1,5% vegna þessa eins út af fyrir sig.
Sjálfsagt er unnt að reikna kostnað fólks af ofurtollum stjórnvalda á ýmsan hátt og fá misjafnar niðurstöður. Meðan ekki eru rökstuddar betri tölur um afleiðingarnar en þær, sem Alþýðusambandið hefur reiknað, verða þær teknar gildar sem stærðargráða vandamálsins.
Ríkisstjórnin hefur snúið út úr alþjóðlegu tollasamkomulagi, sem kennt er við GATT og var undanfari þess, að komið var á fót Alþjóða viðskiptastofnuninni. Ríkisstjórnin fullyrðir blákalt, að markmið samkomulagsins hafi ekki verið að lækka vöruverð til almennings.
Markmiðið með auknu viðskiptafrelsi í milliríkjaverzlun er að gera aðildarríki Alþjóða viðskiptastofnunarinnar samkeppnishæfari á sérsviðum sínum með því að lækka rekstrarkostnað þeirra og auðvelda þeim að afla sér markaða fyrir útflutningsafurðir sínar.
Fullyrðingar um, að ekkert markmið eða hálft markmið hafi verið með auknu viðskiptafrelsi, eru gripnar úr lausu lofti. Þær sýna hins vegar yfirgengilegan hroka ríkisstjórnar, sem telur sig vita af reynslu, að kjósendur haldi áfram að éta þvættinginn úr lófa hennar.
Samkomulagið miðaðist við hægfara bata á því ástandi, sem fyrir var. Enginn reiknaði með, að ein ríkisstjórn í heiminum læsi biblíuna eins og kölski og hækkaði grænmetisverð frá því, sem fyrir var. En þetta hefur einmitt gerzt hjá svartasta afturhaldinu á Íslandi.
Íslenzk stjórnvöld hafa talið sig vera að ganga erinda framleiðenda grænmetis, þegar þau bönnuðu áður fyrr innflutning grænmetis og setja núna ofturtolla á þennan innflutning. En afleiðingin er auðvitað sú, að íslenzkir neytendur borða miklu minna grænmeti en aðrir.
Á vegum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar og landlæknisembætta ýmissa vestrænna landa er eindregið hvatt til aukinnar neyzlu grænmetis, þótt neyzlan sé þar margfalt meiri en hún er hér. Stóraukin neyzla grænmetis er talin áhrifamikil leið til bættrar heilsu.
Stefna íslenzkra stjórnvalda leiðir til lakari heilsu þjóðarinnar og meiri kostnaðar ríkis og skattgreiðenda af sjúkrahúsum og öðrum stofnunum veikindageirans en ella væri. Stefna ríkisstjórnarflokkanna er beinlínis tilræði við líf og heilsu almennings á Íslandi.
Harðast kemur hrammur afturhaldsins niður á neyzlu þess grænmetis, sem hollast er, lífrænt ræktaðs grænmetis. Það er dýrara en annað grænmeti og sérstaklega hart leikið af ofurtollum. Kílóverð á lífrænt ræktuðu grænmeti er hér báðum megin við þúsundkallinn.
Í ljósi þessara móðuharðinda af mannavöldum er hlálegt, að nytsamir sakleysingjar koma fram í ríkisreknum auglýsingum til að hvetja fólk til að borða það, sem þeir kalla fimm skammta af grænmeti á dag. Sakleysingjarnir eru greinilega lítt fróðir um fjárhag almennings.
Sérfræðingarnir, sem hafðir hafa verið að fífli í auglýsingum þessum, ættu að biðja þjóðina afsökunar með því að ganga sameiginlega á fund ríkisstjórnarinnar og óska eftir afnámi ofurtollanna. Þar finna þeir vandamálið ekki síður en í lélegum lífsháttum almennings.
Hlutur neytenda er í auknum mæli fyrir borð borinn. Ofurtollar á grænmeti eru ekki aðeins fjárhagslegar ofsóknir, heldur spilla þeir einnig heilsu fólks.
Jónas Kristjánsson
DV