Ríkisstjórnin þurfti ekki að æfa sig í sjónhverfingum, þegar hún var að mata fjölmiðla og almenning á fréttum af undirbúningi frumvarps til fjárlaga ríkisins á næsta ári. Margt af því, sem hún er að vinna að, er til bóta og hefði fengið hljómgrunn, án nokkurs dulargervis.
Blekkingar ríkisstjórnarinnar hafa einkum verið tvenns konar. Áður hefur hér í leiðara verið fjallað um aðra tegundina. Hún felst í, að loforð um óbreytta skatta eru efnd á þann hátt, að lögð eru á fólk og fyrirtæki gjöld fyrir ýmsa þjónustu, sem þessir aðilar fá.
Hin tegundin hefur meira verið í fréttum hér í blaðinu að undanförnu. Hún felst í, að ríkisstjórnin reynir að gera sem mest úr erfiðleikum sínum til þess að fá fólk til að sætta sig við niðurskurð þjónustu og hækkuð þjónustugjöld, og geri ekki of miklar kjarakröfur.
Þegar fjármálaráðherra talar um 25 milljarða vanda ríkissjóðs á næsta ári, 1992, er hann búinn að tína til 5 milljarða fortíðarvanda vegna óráðsíðu fyrri ríkisstjórnar, 2 milljarða í tekjutap vegna samdráttar í þjóðarbúinu og 4 milljarða fjárlagahalla á yfirstandandi ári, 1991.
Stærsti hluti 25 milljarða vandans felst þó í tillögum ráðherra núverandi ríkisstjórnar. Þær fara samanlagt tæpa 15 milljarða fram úr forsendum gildandi fjárlaga. Það skiptist þannig, að eldri lög heimta 7 milljarða, nýleg lög 3 milljarða og ný óskhyggja 4 milljarða.
Mikill hluti vandans felst því í hefðbundnum verkum á borð við að skera niður óskir ráðherra um ný útgjöld og að fresta eða hætta við mál, sem ný og gömul lög gera ráð fyrir. Þetta er ekki nýtt af nálinni og er ekki tilefni sérstakrar samúðar í garð stjórnarinnar.
Ráðherrarnir eru misjafnlega áhugasamir um þetta verk. Heilbrigðisráðherra hefur riðið á vaðið með niðurskurði á þátttöku ríkisins í lyfjakostnaði og er að koma á fót gjaldheimtu fyrir legu á sjúkrahúsum, að vísu á þann hátt, að ríkið skammti undanþágur út og suður.
Landbúnaðarráðherra er hins vegar svo tregur, að ríkisstjórnin hefur skipað honum annan ráðherra til aðstoðar. Landbúnaðarráðherra vill ekki heyra á þessa aðstoð minnst og talar um að beita sjónhverfingum á borð við “að breyta uppsetningu fjárlagafrumvarpsins”.
Svipaður tónn er í sjávarútvegsráðherra, sem sagði: “Ég hef verið að leita leiða til sparnaðar með tilfærslum.” Á bak við þessar tilvitnanir í tvo ráðherra er gömul ráðherraspeki um, að losna megi við vandamál með því að færa þau til og hagræða þeim í bókhaldi.
Í sparnaðaráformum ríkisstjórnarinnar er athyglisvert, hve mikil áherzla er lögð á niðurskurð velferðar hjá almenningi, svo sem í heilbrigðiskerfinu, og lítil áherzla á niðurskurð velferðar hjá atvinnuvegum, svo sem í landbúnaði. Þetta minnir nokkuð á Gorbatsjov.
Forseti Sovétríkjanna situr yfir gjaldþrota ríkisbúi og gengur með betlistaf um Vesturlönd. Á sama tíma heldur hann uppi 20% hlutdeild stríðsvélarinnar í ríkisbúinu. Þetta er margfalt meira fé en það, sem hann segir vanta til að koma þjóðarhag af stað að nýju.
Hér á landi er líka verið að skera til blóðs á ótal sviðum, meira eða minna til að koma í veg fyrir eða fresta niðurskurði á okkar stríðsvél, það er að segja á ríkisrekstri landbúnaðar. Þar væri hægt að ná öllum sparnaðinum, en því miður er bannhelgi á slíkum sparnaði.
Þótt viðurkenna beri, að ríkisstjórninni sé fjár vant, er rétt að skoða vandann í víðara samhengi, svo að sjá megi, að hann er meira eða minna heimalagaður.
Jónas Kristjánsson
DV