Ný og margslungin skoðanakönnun sýnir, að mikill meirihluti Bandaríkjamanna er sama sinnis og mikill meirihluti Evrópumanna í utanríkismálum. Meirihlutinn hafnar einleik Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi, hernaðarstefnu í utanríkismálum og telur Sameinuðu þjóðirnar vera bezta vettvanginn til að leysa alþjóðleg vandamál. Til dæmis vilja 76 gegn 12 af hundraði Bandaríkjamanna samstarf við önnur ríki um lausn alþjóðlegra vandamála. Þeim, sem eru fylgjandi einhliða aðgerðum Bandaríkjanna hefur raunar fækkað úr 17 af hundraði í 12 af hundraði. Þetta er mjög athyglisvert í ljósi stríðsins gegn Írak og linnulausra árása bandarískra stjórnvalda og fjölmiðla á Sameinuðu þjóðirnar og á ráðamenn Frakklands og Þýzkalands, sem hafa fylgt eindregnu almenningsáliti á Vesturlöndum. Frá þessu segir Jim Lobe hjá Inter Press Service.