Þótt séríslenzka kreppan sé rétt að byrja, eru tæplega tíu þúsund manns þegar orðin atvinnulaus. Annar eins fjöldi mun missa atvinnu sína á næstu árum, einkum vegna samdráttar í gömlum atvinnugreinum, sem ekki geta endalaust haldið uppi dulbúnu atvinnuleysi.
Þriðja tugþúsundið verður atvinnulaust af því að það er sá fjöldi, sem mun bætast við vinnumarkaðinn fram til aldamóta, án þess að þjóðfélagið búi til ný tækifæri til að mæta aukningunni. Þannig er vandamál líðandi stundar aðeins þriðjungur af vandanum í heild.
Að kröfu aðila vinnumarkaðarins hefur ríkisstjórnin gert illt verra með því að færa atvinnuleysi milli ára. Hún útvegaði smávægilega vinnu í fyrra með því að taka skammtímalán til að flýta verkefnum. Þá milljarða verður að endurgreiða um leið og verkefnin eru úr sögunni.
Kreppan byrjaði í fyrra sem kreppa hugarfarsins og fer senn að breytast í hefðbundna alvörukreppu. Framtak og áræði hefur látið undan síga, meðan aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin hafa lagzt í skottulækningar, sem vernda og efla forsendur atvinnuleysisins.
Kreppan kemur ekki frá útlöndum og er því hreint sjálfskaparvíti þjóðarinnar, sem styður verndun og eflingu hins liðna. Kreppunni má bægja frá með því að hafna þessari stefnu og fara í staðinn að hlúa að vaxtarbroddi hins nýja, þess sem tekur við af hinu gamla.
Milljörðum er kastað út í veður og vind á hverju ári í ríkisrekstri landbúnaðar. Verið er að taka upp niðurgreiðslur á fleiri sviðum til að vernda fortíðina í iðnaði. Senn verður ráðizt að fiskistofnunum með neyðarúrræði aukinna veiðikvóta, sem leiðir til hruns sjávarútvegs.
Hugmynda- og athafnafólk hefur þó ekki gefizt upp. Alls staðar eru að kvikna ný verkefni, yfirleitt í fámennum fyrirtækjum. Í miðju atvinnuleysinu er alltaf verið að auglýsa eftir fólki á afmörkuðum sviðum. Oft er erfitt að fá fólk, sem kann til verka í vaxtargreinum.
Í Háskólanum er leitað skipulega að nýjum tækifærum og reynt að setja saman aðgengilegar upplýsingar um þau. Þar er líka stunduð endurmenntun á ýmsum sviðum, sem koma fólki að gagni, þegar það skiptir um starfsvettvang. Þetta er glæta í skammdegi kreppunnar.
Aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin ættu að stuðla að slíkri endurhæfingu þjóðarinnar til átaka á nýjum sviðum fremur en að kreppa verndarvænginn utan um láglaunagreinar fortíðarinnar. Það er miklu ódýrara að hlúa að hinu nýja en að vernda hið gamla.
Atvinnuleysið stafar ekki af skorti á tækifærum hér á landi. Það stafar af því, að breytingum, sem verða á aðstæðum í tímans þungu rás, er ekki mætt með sveigjanleika í átt til breytinganna, heldur með krampakenndri stirðnun í farvegi hins gamla og góðkunna og úrelta.
Við höfum aðra mikilvæga ástæðu til að velja sókn fremur en vörn. Við þurfum að efla bjartsýni og sjálfstraust kynslóðanna, sem koma til skjalanna. Við verðum að efla vilja til átaka og afreka. Unga fólkið þarf að finna, að þjóðin hafi þörf fyrir það og vænti mikils af því.
Kjarkmissir er ein alvarlegasta hliðarverkun þess, þegar atvinnuleysi fer saman við varnaraðgerðir, en ekki sóknaraðgerðir. Við megum ekki við því, að unga fólkið telji, að opið eða dulbúið atvinnuleysi sé eðlilegt og hefðbundið ástand, sem taki við að skólagöngu lokinni.
Atvinnuleysið stafar af kreppu, sem orðið hefur til í hugum fólks, mest af völdum rangrar stefnu stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og ýmissa hagsmunasamtaka.
Jónas Kristjánsson
DV