Heimasmíðuð kreppa

Greinar

Tæplega 2000 manns hafa verið atvinnulaus að jafnaði fyrstu mánuði þessa árs. Það er um það bil tvöfalt á við það, sem var árin 1969 og 1983, er voru verstu ár lýðveldisins. Atvinnuleysi hefur raunar ekki verið svona mikið síðan í kreppunni miklu fyrir stríð.

Segja má, að 2000 manns séu ekki óbærilega mikill fjöldi. En spáð er í Verzlunarráði, að talan fari upp í 5000 manns með haustinu. Líklegt má því telja, að næsti vetur verði mun harðari en hinn síðasti og að heimagerða kreppan fari að síga á með vaxandi þunga.

Fyrirtæki standa hvarvetna höllum fæti. Landbúnaðurinn liggur alveg uppi á ríkissjóði og skattgreiðendum. Fyrirtæki í sjávarútvegi ramba á barmi gjaldþrots og eru sum á gjörgæzlu hjá opinberum sjóðum. Þjónustufyrirtæki búa við taprekstur eins og Sambandið.

Á sama tíma hafa lífskjör almennings versnað, einnig þeirra, sem enn hafa atvinnu. Ekki var fyrr búið að rita undir allsherjar kjarasamninga í vor en ríkisstjórnin tók alla kjarabótina til baka og meira til með nokkrum völdum handaflsgerðum til bjargar ríkissjóði.

Við sjáum fram á gjaldþrot fyrirtækja og samdrátt í atvinnulífi. Við sjáum fram á mikið og vaxandi atvinnuleysi og gjaldþrot heimila. Landflótti er að hefjast, svo sem sést af auknum fyrirspurnum hjá sendiráðum Norðurlanda. Mörg mögur ár virðast vera framundan.

Íslenzka kreppan á sér enga forsendu utan landsteina. Efnahagur þjóða blómstrar hvarvetna umhverfis okkur. Verðlag útflutningsafurða okkar er fremur hátt, þar sem kaupgeta er mikil í útlöndum. Við ættum við eðlilegar aðstæður að geta fylgt

Íslenzka kreppan byggist ekki á aflabresti. Sjávarafli okkar er mikill og góður og hefur verið tiltölulega jafn árum saman. Vísindamenn telja, að við þurfum að fara að draga meira úr sókninni. Þau ráð hafa enn ekki verið þegin, svo að kreppan er ekki því að kenna.

Sérstaða íslenzku kreppunnar er, að hún er heimatilbúin. Hún er framleidd með handafli íslenzkra stjórnvalda. Við höfum í tæpt ár mátt þola ríkisstjórn, sem er mun hneigðari fyrir miðstýringu en nokkur önnur stjórn hefur verið á síðustu þremur áratugum.

Vandamálin byrjuðu þó fyrir tíð þessarar ríkisstjórnar. Einna alvarlegasta atlagan að þjóðarhag var búvörusamningur til fjögurra ára, sem fyrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar gerði fyrir rúmlega tveimur árum. Samningurinn hneppti þjóðina í þrældóm.

En það er ekki fyrr en með tilkomu síðari ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, að hjól ógæfunnar hafa farið að snúast af fullum krafti. Frá upphafi hefur stjórn hans hagað sér í fjármálum og atvinnumálum eins og peningar væru skítur, sem dreifa bæri út í veður og vind.

Þegar í fyrrahaust voru stofnaðir milljarðasjóðir til að tryggja framhald á örvæntingarrekstri úr fortíðinni og um leið óbeint til að hindra þróun nýs rekstrar, sem horfði til framtíðar. Æ síðan hefur stjórnin gengið fram eins og hver milljarður króna væri bara skiptimynt.

Sumum vandræðum hefur verið frestað með erlendum lánum. Önnur hafa lent á ríkissjóði, sem rekinn er með milljarðahalla á þessu ári og verður með tvöfalt meiri halla á því næsta. Ríkisstjórnin telur sig því þurfa að ná meiri sköttum af fátækara fólki og fyrirtækjum.

Ráðherrar sitja á kafi í eigin ósóma og halda áfram að haga sér eins og þeir séu húsum hæfir og hafi meira að segja vit á enn meira handafli, enn meiri miðstýringu.

Jónas Kristjánsson

DV