Eðlilegt er að ræða í alvöru, hvort Íslendingar eigi að koma sér upp eins konar her eða heimavarnarliði eins og Björn Bjarnason menntaráðherra lagði til fyrir helgina. Það er jafn eðlilegt og að ræða í alvöru, hvort Íslendingar eigi að taka þátt í Evrópusambandinu.
Slíkar tillögur fara í taugar þeirra, sem vilja ekki, að þjóðin eyði miklum tíma í innri ágreining. Þeir afgreiða hugmyndirnar með því að segja þessi mál ekki vera til umræðu. Þannig hafa hvorki orðið eðlileg skoðanaskipti um Evrópusambandið né um íslenzkar heimavarnir.
Íslendingar telja sig fullgildan aðila í fjölþjóðlegum samskiptum. Samt vantar hér einmitt það, sem frá ómunatíð hefur verið talin helzta forsenda ríkisvalds, eigin varnir gegn ytri áreitni. Ísland getur ekki varið sig og getur að því leyti ekki talizt vera fullgilt ríki.
Hingað til höfum við sparað þau 2-3% þjóðarframleiðslunnar, sem nágrannaþjóðir okkar leggja til varnarmála, og varið þeim í staðinn til að efla offramleiðslu dýrra landbúnaðarafurða. Flestir hafa verið fremur ánægðir með að losna við milljarðakostnað af herbúnaði.
Ísland hefur um leið afsalað mikilvægum hluta fullveldisins til Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjanna. Komið hefur fram, að Bandaríkjamenn eru orðnir þreyttir á hlutverki sínu og eru byrjaðir að rifa seglin í viðbúnaði sínum hér á landi. Framtíð varnanna er því óvís.
Öðrum þræði efast fólk um, að styrjaldir úti í heimi muni bera að ströndum Íslands. Það er falskt öryggi, því að skæruhernaður og hryðjuverk hafa að nokkru tekið við hlutverki hernaðar. Við sjáum þessa dagana, að hernaðarástand ríkir í Frakklandi vegna sprengjuhættu.
Við þurfum að geta mætt hryðjuverkum og hættu á hryðjuverkum. Til þess þarf sveitir, sem hafa þjálfun á þeim sviðum. Þótt víkka megi hlutverk björgunarsveita og Landhelgisgæzlunnar, er ekki líklegt, að það dugi til aðgerða á borð við þær, sem hafa verið í Frakklandi.
Að sjálfsögðu er nærtækara að efla Landhelgisgæzluna, sem hefur árum saman verið í svo römmu fjársvelti, að hún getur ekki haldið uppi gæzlu í efnahagslögsögunni og utan hennar, sem þó ætti að vera mikilvægasti og brýnasti þáttur íslenzkra heimavarna.
Hugsanlegt er að víkka svið Landhelgisgæzlunnar og efla hana til strandgæzlu, sem væri þá annað mikilvægt svið íslenzkra heimavarna. En varnir gegn hryðjuverkum eða öðru áreiti á landi væru þó tæpast á færi hennar, né heldur björgunarsveita samtaka áhugafólks.
Ef heimavarnir Íslands verða einhvern tíma skipulagðar, er líklegt, að Landhelgisgæzlan, björgunarsveitirnar og víkingasveit lögreglunnar geti gegnt veigamiklu hlutverki. Samt er freistandi að telja slíka skipan ófullnægjandi án sérstaks heimavarnarliðs atvinnumanna.
Þótt innlent herlið eða heimavarnarlið muni aldrei skipta máli í hefðbundnum hernaði, er líklegt að það geti aukið öryggi okkar gegn hernaði af því tagi, sem að undanförnu hefur verið háður á götum Frakklands og hefur verið að leysa hefðbundinn hernað af hólmi.
Heimavarnarliði má einnig fela það hlutverk að gæta ýmiss konar hernaðarbúnaðar, sem Bandaríkjamenn mundu skilja eftir, ef þeir minnkuðu enn frekar hlutverk sitt hér á landi, að svo miklu leyti, sem slík gæzla yrði ekki talin á færi borgaralegra starfsmanna.
Loks er líklegt, að varnarlið atvinnumanna geti tekið að sér þær skyldur Íslands að taka þátt í að koma á friði og að gæta friðar á ýmsum átakasvæðum í heiminum.
Jónas Kristjánsson
DV