Heimsins mesti matarforði.

Greinar

Gífurlegar birgðir sjávarafurða eru alltaf í geymslum fiskvinnslustöðva. Þótt sölur og siglingar gangi greiðlega, eru yfirleitt um þriggja mánaða birgðir í slíku millibilsástandi. Við síðustu talningu nam verðmæti sjávarafurða, sem biðu útflutnings, 3.730.000.000 krónum.

Þetta var þá fjörutíu sinnum meira verðmæti en fólst á sama tíma í óseldum og óseljanlegum landbúnaðarafurðum, sem biðu útflutnings. Matvælabirgðir landbúnaðarins eru aðeins lítið brot af matvælabirgðum landsins, þar sem uppistaðan er sjávarútvegurinn, okkar stóriðja.

Eitt mikilvægasta verkefni almannavarna á Íslandi ætti að felast í að tryggja geymslu sjávarvörubirgðanna, ef siglingar féllu niður af styrjaldarástæðum eða öðrum stórmælum. Af stríðinu við Persaflóa getum við lært, að við megum ekki treysta á endalausan olíustraum til landsins.

Ekki eru nema tveggja mánaða birgðir eldsneytis í landinu. Ef siglingar stöðvast, munu atvinnuvegirnir stöðvast og landbúnaður þar á meðal. Engin framleiðsla matvæla yrði, svo heitið geti, að þeim tíma liðnum.

Við slíkar aðstæður er mikilvægast, að frystigeymslur sjávarútvegsins gangi fyrir innlendri orku, en ekki innfluttri. Ef hægt er að halda geymslunum virkum á ófriðartíma, höfum við þar meiri matarbirgðir á mann en þekkjast hjá öðrum þjóðum.

Í löndum eins og Bretlandi og Svíþjóð er haldið uppi landbúnaði til að tryggja, að meiri matarbirgðir séu í landinu en ella væri. Og því hefur stundum verið haldið fram hér, að við þyrftum af öryggisástæðum að halda uppi óeðlilega miklum landbúnaði.

Bretar og Svíar eru ekki sérhæfðar fiskveiðiþjóðir eins og við erum. Þeir hafa ekki í landinu frystigeymslur með nokkurra ára matarbirgðum fyrir landsmenn eins og við höfum. Okkar matvælaöryggi í sjávarútvegi er margfalt meira en þeirra öryggi í landbúnaði.

Ef siglingar til landsins stöðvast, yrði það að sjálfsögðu mikið áfall. Neyzluvenjur okkar byggjast að verulegu leyti á matvælum, sem ekki eru framleidd í landinu og ekki hægt að framleiða í landinu. Sem dæmi um þetta má nefna kornmat og ýmislegt grænmeti og ávexti.

Hætt er við, að mörgum þætti einhæft að hafa fisk í öll mál. En á ófriðartímum verður oft að sæta öðru en því, sem bezt þykir. Þá skiptir meira máli, að fólk geti satt hungur sitt en að það gerist í formi, sem menn hafa vanizt. Og fiskurinn er það, sem við höfum við höndina.

Miklar birgðir af kjöti í landinu bæta ekki svo mjög stöðu okkar, því næringarefni eru nokkurn veginn hin sömu í fiski og kjöti. Það er því ekki haldbær röksemd, að við þurfum af öryggisástæðum að halda uppi offramleiðslu í hinum hefðbundnu greinum landbúnaðarins.

Ekki má heldur gleyma, að tveggja mánaða eldsneytisbirgðir mundu gera fiskveiðiflotanum kleift að draga á land 2.400.000.000 króna matarbirgðir til viðbótar við þær, sem jafnan eru til í landinu. Annar eins matarforði á mann yrði hvergi til í heiminum.

Það, sem við þurfum að gera, er að tryggja, að matarbirgðirnar í landinu liggi ekki undir skemmdum, ef til ófriðar eða annarra hörmunga dregur. Við þurfum hins vegar ekki að hafa áhyggjur af, að þessar birgðir séu ekki nægar. Og við þurfum hvorki kjötfjöll né smjörfjöll.

Jónas Kristjánsson.

DV