Heimska og hroki

Greinar

Símaskráin fyrir 1995 er endanleg staðfesting á, að Póstur & sími er ófær um að gegna hlutverki símaeinokunar. Ekkert mark hefur verið tekið á málefnalegri gagnrýni, sem símaskrá ársins 1994 sætti fyrir ári. Símaskráin í ár er nánast sömu annmörkum háð og hin fyrri.

Stærsti hluti vandans er tvískipting skrárinnar, sem öpuð er eftir símaskrám milljónaborga í útlöndum. Símaskrá kvartmilljón manna þjóðar kemst vel fyrir í einu bindi, sem er þynnra en símaskrárbindi í útlöndum. Leit í einni skrá tekur mun skemmri tíma en leit í tveimur.

Ofan á þessa sóun tugþúsunda vinnustunda notenda skrárinnar bætist svo, að Póstur & sími hefur reynzt ófær um að skilgreina í reynd, hvort símanúmer eigi heima í nafnaskrá eða atvinnuskrá. Í fjölmiðlum hafa að undanförnu verið rakin ótal dæmi um þessa vanhæfni.

Talsmaður Pósts & síma hefur gefið ráð um, hvar notendur eigi að byrja að leita að númeri í þessum skrám. Virðist stofnunin gefa sér, að það sé náttúruleg iðja fólks að þurfa að leita í hverri skránni á fætur annarri. Það er gott dæmi um veruleikafirringu stofnunarinnar.

Þegar vísað er frá nafnaskrá yfir í atvinnuskrá, er ekki gefið upp neitt númer til að spara flettendum tíma, heldur er höfð þar eyða í bókinni. Þetta tryggir, að allir þurfa að fletta upp í hinni skránni, líka þeir, sem bara eru að leita að einhverju aðalnúmeri í skiptiborði.

Nýtt letur skrárinnar hefur ekki leitt til þess pappírssparnaðar og aukins læsileika, sem einokunarstofnuninni var bent á í gagnrýninni í fyrra. Í stað 30% aukningar á pappírsnýtingu kemur 9% aukning, sem gerir símaskrána auðvitað mun þykkri en hún þarf að vera.

Nýja letrið er mjórra en fyrra letrið, svo að pláss er fyrir orðin: “Sjá atv.skrá”, án þess að þau fari í dálkinn, sem er ætlaður fyrir símanúmer. Þetta hefði verið til bóta, ef plássið hefði verið notað fyrir eitt af aðalnúmerum viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar, en svo er ekki.

Íslenzka símaskráin í núverandi ástandi er afkvæmi heimsku og hroka. Þetta tvennt verður að fara saman til að gera ár eftir ár sömu mistökin, þrátt fyrir vel grundaðar og aðgengilegar ábendingar um breytingar. Þessir eiginleikar ráða ferð yfirstjórnar Pósts & síma.

Sá, sem aðeins er heimskur, gerir mistökin venjulega bara einu sinni. Það þarf hroka í ofanálag til að gera mistökin aftur og aftur. Slíkur hroki verður aðeins til í einokunarstofnunum á borð við Póst & síma, sem eru handan raunveruleika dagslegs lífs á Íslandi.

Póstur & sími hefur ítrekað sýnt fram á, að hann er óhæfur til að byggja upp skynsamlegan gagnabanka um símanúmer þjóðarinnar og enn frekar óhæfur til bókaútgáfu á því sviði. Þetta verkefni ber að gefa frjálst, svo að markaðurinn geti spreytt sig á að gera betur.

Hin endurteknu símaskrárævintýri hafa sáð efasemdum um, að Póstur & sími sé stofnun, sem geti lagað sig eftir aðstæðum. Mjög hefur verið rætt um, að afnema beri einokun hans, annað hvort á völdum sviðum eða almennt. Sífellt bætast rök í sarp símafrelsis.

Ef einokun Pósts & síma verður afnumin, gerist það ekki með því að skipta stofnuninni upp í smærri einokunarfélög eða smærri fyrirtæki með sömu ráðamönnum. Það þarf að taka einokunina frá stofnuninni og deildum hennar, svo og frá ráðamönnum stofnunarinnar.

Póstur & sími er bezta auglýsingin, sem markaðssinnar geta fengið til að benda á, að ríkisrekstur sé jafnan óhagkvæmari en samkeppnisrekstur á frjálsum markaði.

Jónas Kristjánsson

DV