Eitt af helztu dagblöðum Þýzkalands, Frankfurter Allgemeine, gerði matargerðarlist á Íslandi að umræðuefni í langri grein á fimmtudaginn í tilefni þess, að íslenzkir kokkar höfðu unnið bronzverðlaun á ólympíuleikum matargerðar, sem haldnir voru í Frankfurt.
Freddy Langer, höfundur greinarinnar, segir meðal annars, að matgæðingar í Frakklandi og á Ítalíu hafi uppgötvað musteri matargerðarlistar í Reykjavík og komizt að raun um, að ódýrara sé að borða í þeim heldur en í hliðstæðum musterum í heimalöndum þeirra.
Greinarhöfundur gengur svo langt að segja, að engin vond veitingahús séu til á Íslandi. Hann getur þess þó í leiðinni, að skuggahliðar íslenzkrar matargerðar felist í hamborgarabúlum við þjóðveginn, sem selji lélega hamborgara fyrir meira en 20 þýzk mörk á mann.
Í greininni er vikið að því, að Íslendingar þurfi að nota matargerðarmusteri Reykjavíkur sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Í þeim sé að finna auðlind, sem ekki hafi verið nýtt nægilega, þótt sérfræðingar í Evrópu séu af hyggjuviti sínu farnir að átta sig á þeim.
Freddy Langer er að benda á þverstæðu í veitingarekstri á Íslandi. Annars vegar eru til mjög góð veitingahús í Reykjavík, sem eru heldur ódýrari en jafngóð veitingahús á meginlandi Evrópu. Hins vegar eru lélegar okurbúlur á vegi ferðamanna um þjóðvegi landsins.
Svo virðist sem eigendur skyndibitastaða við þjóðveginn fari í Hótel Holt til að skrifa upp verð af matseðlinum til notkunar heima fyrir. Síðan bíði þeir átekta eins og veiðimenn eftir ferðamönnum, sem eiga sér ekki góðrar undankomu auðið á skoðunarferðum um landið.
Verðið á veitingum í Hótel Holti, Við Tjörnina, hjá Þremur frökkum og öðrum stöðum í heimsklassa er lágt, þegar miðað er við gæði. Verðið á veitingum skyndibitastaða er hins vegar hátt á sama mælikvarða. Eðlilega teygju vantar í veitingaverð hér á landi.
Skyndibitamennirnir við þjóðveginn eru að misnota auðlindina, sem felst í aðdráttarafli íslenzkrar náttúru, meðan veitingamenn matargerðarmustera í Reykjavík eru að bjóða útlendingum sanngjörn afnot af viðbótar-auðlind, sem ekki rýrnar, þótt af sé tekið.
Matargerðarlistin í Reykjavík er hornsteinn, sem gerir kleift að byggja upp íslenzka ráðstefnuþjónustu, þá tegund ferðaþjónustu, sem gefur mestar tekjur og veldur minnstu álagi á viðkvæma náttúru landsins. Við þurfum að gefa þessu tækifæri aukinn gaum.
Veitingahúsin og kokkarnir eru til, en nýtast ekki nógu vel, því að innlendi markaðurinn er takmarkaður og ferðamannamarkaður sumarsins skammvinnur. Með ráðstefnum utan hásumartímans er unnt að auka nýtingu sjálfstæðra veitingahúsa eins og hótelanna.
Greinin í Frankfurter Allgemeine er ókeypis auglýsing, sem stuðlar að því, að erlendir aðilar sjái kosti þess að halda ráðstefnur í Reykjavík, svo að þátttakendur hafi í leiðinni tækifæri til að kynna sér hina rómuðu og bronzverðlaunuðu matargerðarlist Íslendinga.
Auðvitað er það ferskur sjávarafli, sem hefur gert íslenzkum kokkum kleift að þróa list sína á það stig, að erlendir menn jafna henni við sjálfa matargerðarlist Frakklands. Matargerðin á Íslandi er eðlileg framlenging af greiðum aðgangi okkar að auðlind hafsins.
Í aðvífandi kreppu er okkur hollt að sjá, að til eru vannýtt tækifæri til atvinnu og arðs í tengslum við sjávaraflann. Íslenzkir kokkar eru eitt tækifæranna.
Jónas Kristjánsson
DV