Heimskulegt Blönduþjark.

Greinar

Verðgildi landsvæðis hverrar kindar á húnvetnskum afréttum mundi verða 147 þúsund krónur eða 14,7 milljón gamalkrónur, ef fallizt yrði á þá tilhögun Blönduvirkjunar, sem Páll Pétursson alþingismaður hefur lagt til.

Ef allt afréttaland íslenzks sauðfjár væri metið í notagildi á sama hátt, mundu hinar 800 þúsund kindur kosta í afréttalandi 117,6 milljarða króna eða 11.760 milljarða gamalkróna og vera dýrustu skepnur heimsbyggðarinnar.

Svona verðmæt dýr höfum við á okkar snærum til að geta borgað styrki, uppbætur og niðurgreiðslur með lambakjöti, svo og fræ og áburð til að minnka skaðann, sem kindurnar valda á hinum sömu heiðum.

Þannig er sauðfjárræktin ekki aðeins aðferð til að brenna peninga okkar með styrkjum, uppbótum og niðurgreiðslum. Hún er líka aðferð til að draga úr möguleikum okkar til að fá rafmagn til einkanota og atvinnulífs.

Tillögur Páls fela í sér stíflur út og suður allar heiðar og hækkun virkjunarkostnaðar Blöndu úr 739 milljón krónum í 959 milljón krónur. Hækkunin er 30% og dregur auðvitað stórlega úr hagkvæmni virkjunarinnar.

Vel er hægt að hugsa sér ýmis þarfari verkefni fyrir 220 milljón krónur eða 22 milljarða gamalkróna en að byggja fyrir þær stíflur handa sauðfé Páls, svo að þær geti krafsað áfram í friði á kostnað skattgreiðenda.

Við getum hæglega séð, hversu dýrari og hægari verður orkuvæðing þjóðarinnar, ef slík hugsun ætti almennt að gilda við byggingu orkuvera. Þá væri nær að borga Páli fyrir að bregða búi og létta á skattgreiðendum.

Samningar við Pál um einhverjar eða allar stíflur hans eru hættulegt fordæmi. Við megum alls ekki fórna hagsmunum þjóðarinnar fyrir hagsmuni dýrustu bagga hennar, sauðfjárbænda. Þess vegna ber að slíta Blöndusamningum.

Þegar er búið að eyða allt of miklum tíma í tilgangslaust þjark um Blöndu. Menn verða að fara að átta sig á, að þar eru hafðar uppi harðar og ósveigjanlegar kröfur, sem munu leiða til, að Blanda verður dýrari kostur en ýmsir aðrir.

Því miður er hönnun Fljótsdalsvirkjunar ekki svo langt komin, að óhætt sé að ráðast næst í hana. Orkuráðherra verður að sitja á freistingum sínum, með það í huga, að honum yrði kennt um orkuskort af völdum tafa.

Nú er ekki um annað að ræða en að taka upp úr skúffu tilbúna hönnun enn eins orkuversins á Þjórsársvæðinu, Sultartanga. Þar þurfum við að virkja skjótt og vel og ljúka um leið undirbúningi Fljótsdalsvirkjunar.

Því miður er Sultartangi á eldvirku svæði. En við höfum engan tíma til að bíða og verðum að láta við hann sitja í bili. Við verðum að viðurkenna, að karpið um Blöndu hefur klúðrað um sinn dreifingarstefnu orkuvera.

Síðan má einhvern tíma aðgæta, hvort Páll er fallinn frá sauðfjárstefnunni. Hitt er útilokað, að hann fái nú tækifæri til að beita orkuskortinum sem vopni mafíunnar; sem tilboði, er ekki sé unnt að hafna.

Við Sultartanga er enginn Páll og fátt um sauðfé. Þar getum við í bili bjargað orkuskortinum á meðan við athugum aðra staði og þá sérstaklega, hvort þar standi í vegi sauðfjárkóngar á borð við Pál Pétursson alþingismann.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið