Heimsmarkaðsverð er rétt

Greinar

Nýsjálendingar flytja út mikið af landbúnaðarvörum og verða í útflutningi að sæta heimsmarkaðsverði. Þeir keppa til dæmis við Íslendinga um sölu lambakjöts og ráða miklu um, að verðið er svo lágt, að það dugir varla fyrir slátur- og flutningskostnaði hér heima.

Samt styðja Nýsjálendingar ekki sauðfjárrækt eins og við gerum. Meðan markaðsstuðningur við landbúnað hér á landi er 73% samkvæmt tölum frá efnahags- og framfarastofnuninni OECD, nemur stuðningurinn þar ekki nema 3% og er á allt öðrum sviðum en í sauðfjárrækt.

Talsmenn íslenzks landbúnaðar fara með rangt mál, þegar þeir halda fram, að heimsmarkaðsverð á landbúnaðarvörum sé tilbúið verð, sem skili bændum ekki því verði, er þeir verði að fá til að hafa upp í kostnað og vinnu. Dæmið um Nýja-Sjáland sýnir þetta greinilega.

Ástralir eru önnur landbúnaðarþjóð, sem hefur útflutning búvöru að einum hornsteini efnahagslífsins og verður líka að sæta heimsmarkaðsverði á fjölbreyttum afurðum sínum. Samt er markaðsstuðningur við landbúnað þar í landi aðeins 10%, það er nánast enginn.

Nýsjálendingar og Ástralir eru í hópi auðþjóða heimsins og gera því töluverðar kröfur um lífsþægindi. Þjóðir þriðja heimsins gera minni kröfur af því tagi. Þær flytja út mikið af búvöru án þess að styðja landbúnaðinn neitt og selja auðvitað á heimsmarkaðsverði eins og aðrir.

Bandaríkjamenn eru í senn ein mesta auðþjóð heimsins og ein mesta útflutningsþjóð búvöru. Framleiðslan er fjölbreytt og rekstur bandarískra bænda er markviss. Markaðsstuðningurinn þar er aðeins 21% og er nánast allur á afmörkuðum sviðum, svo sem í hveitirækt.

Þegar hagsmunaðilar hér á landi og raunar líka á meginlandi Evrópu fárast út af því, að heimsmarkaðsverð sé marklaust, eru þeir bara að segja, að þeir geti ekki keppt við þetta verð, þótt bændur í öðrum heimsálfum geti notað það og hafi það sumir bara nokkuð gott.

Heimsmarkaðsverð ræðst af hagkvæmni í sérhæfðum rekstri, sem býr við ákjósanleg náttúruskilyrði. Í mörgum tilvikum, svo sem í Bandaríkjunum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi eru það engir kotkarlar, heldur vel stæðir bændur, sem standa fyrir þessu verði og selja á því.

Af því að heimsmarkaðsverð er raunhæft verð er eðlilegt að miða við það, þegar reiknaður er út markaðsstuðningur við landbúnað. Það hefur OECD gert í skýrslum sínum um landbúnað þátttökuríkjanna. Þar kemur fram, að íslenzki markaðsstuðningurinn er 73%.

Auðvitað er þetta allt of hátt. Það veldur of háu verði á búvöru á Íslandi, of háum sköttum og of litlu fjármagni til annarra félagslegra þarfa, svo sem til heilsugæzlu og skóla. Það er of dýrt fyrir okkur að halda uppi of miklum landbúnaði á jaðri freðmýrabeltisins.

Ríkinu ber í áföngum að hætta markaðsstuðningi við landbúnað, afnema hvers kongar innflutningshöft og verndartolla, niðurgreiðslur og styrki. Þannig ber ríkinu að afnema allan stuðning við landbúnað, sem er umfram eðlilega fyrirgreiðslu við atvinnuvegi yfirleitt.

Til að byrja með má nota töluverðan hluta af hagnaði ríkisins af slíkum aðgerðum til að borga bændum fyrir að bregða búi. Hvatt hefur verið til þess hér í blaðinu í aldarfjórðung við litlar vinsældir, en fyrstu skrefin til aðgerða hafa þó verið stigin á allra síðustu árum.

Heimsmarkaðsverð á búvöru er raunhæft verð. Ef við viljum, getum við fengið búvöru á því verði og stigið stærsta skref til efnahagsframfara í sögu okkar.

Jónas Kristjánsson

DV