Sextán manna áhöfn loðnuskipsins Óla Óskars var í haust tvo mánuði að veiða nokkurn veginn sama próteinmagn matvæla og allir 4000 sauðfjárhændur landsins framleiða samanlagt á heilu ári, 12.600 próteintonn á móti 15.000.
Sovétríkin fá 25% malvælaframleiðslu sinnar úr heimshöfunum. Jafnframt spara þau andvirði allrar fjárfestingar sinnar í hermálum með mismuni tiltölulega lítils fjárfestingarkostnaðar í sjávarútvegi og tiltölulega mikils í landbúnaði.
Þetta eru nokkur af dæmum Péturs Guðjónssonar, formanns Félags áhugamanna um sjávarútvegsmál. Hann hefur í nokkrum kjallaragreinum í Dagblaðinu að undanförnu bent á mikilvægi auðlinda hafsins og skákanna, sem um þær eru tefldar.
Til dæmis er ljóst, að Bretar tóku skakkan pól í hæðina, þegar þeir gerðust forvígismenn hinnar vestrænu stefnu þröngrar efnahagslögsögu. Þeir áttu í staðinn að byggja taflmennsku sína á legu landsins sem strandríkis.
Meðan strandríki á borð við Bretland, Bandaríkin og Kanada voru úti að aka, voru það hin landluktu Sovétríki, sem högnuðust á stefnu hinna opnu heimshafa. Það var á auðæfum heimshafanna, sem þau unnu kalda stríðið.
Of seint er sagt að iðrast eftir dauðann, eins og Bretar gera núna, grátandi á hnjánum í skrifstofum í Bruxelles, biðjandi um leyfi til að fá að veiða á eigin heimamiðum. Svo dýr reyndist þeim hinn rangi póll.
En hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna er sem betur fer ekki lokið enn. Svo mörg strandríki hafa iðrazt rangrar stefnu, að þau ættu að geta sameinazt um enn frekari lokun heimshafanna en 200 mílurnar gera.
Argentína hefur tekið forustu eins og oftar áður og krafizt réttar strandríkis yfir fiskistofnum, sem færast inn og út yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu. Þessi tillaga þeirra er nú til umræðu á hafréttarráðstefnunni.
Hún er jafnframt klæðskerasaumuð fyrir Íslendinga. Við höfum ýmsan flökkugjarnan fisk; þorsk, sem sækir til Grænlands; loðnu, sem sækir til Grænlands og Jan Mayen; og kannski lax, sem sækir til Færeyja. Og svo er það kolmunninn.
Við þurfum að vernda þessa stofna fyrir úthafsflota Sovétríkjanna og ríkisstyrkjaflota Efnahagsbandalagsins. Við getum það meðal annars með nýrri sókn strandríkja, sem hafa hliðstæðra hagsmuna að gæta á hafréttarráðstefnunni.
Einnig þurfum við að koma á fót hagsmunabandalagi strandríkja Norðurhafa, bandalagi þeirra ríkja, sem hafa helgað sér lögsögu norðan sextugustu breiddargráðu, það er Noregs, Færeyja, Íslands og Grænlands.
Við höfum samið hafréttarfrið við Norðmenn og Færeyinga og getum alveg eins gert það við Grænlendinga, þegar þeir taka hafauðlindir sínar úr höndum Efnahagsbandalagsins í eigin hendur. Þá verða allar þessar þjóðir utan bandalagsins.
Ekkert er því til fyrirstöðu, að slíkt hafréttarbandalag taki upp harða baráttu fyrir brottför allra fiskiskipa Sovétríkjanna og Efnahagsbandalagsins af öllu hafsvæðinu norðan sextugustu breiddargráðu.
Slíkt gerist ekki í kjaftanefnd Norðurlandaráðs, þar sem alls kyns aðrir hagsmunir koma til skjalanna. Við þurfum hreint og klárt hafréttarbandalag til að ná tökum á hinum gífurlegu auðlindum, sem umlykja okkur á alla vegu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið