Heimur versnandi fer

Greinar

Sjaldgæft er að sjá einhvern undir fimmtugu í fiskbúðum Reykjavíkur. Svipað er að segja um sérverzlanir í kjöti, en slæðingur af ungu fólki sést í bakaríum. Meðan eldra fólk borðar venjulegan mat, fær yngra fólkið sér skyndibita upp úr pökkum frá stórmörkuðum.

Þetta er auðvitað alhæfing, sem einfaldar flókinn veruleika. Sú staðreynd breytir því ekki, að meira er um, að eldra fólk fái eðlilegan mat án geymsluefna og annarra viðbótarefna, og að meira er um, að yngra fólk hlaði sig upp af fylgifiskum pakkavörunnar.

Samt hefur nútíminn fært okkur meiri frístundir. Fólk hefur meiri tíma en áður til að matreiða frá grunni í stað þess að opna pakka og stinga í örbylgjuofna. Menn nota bara ekki viðbótartímann til þessa né heldur til ýmissa annarra gamalkunnra lífsins gæða.

Óbrenglaður matur er eitt af nokkrum dæmum um lífsgæði, sem margt ungt fólk fer á mis við. Annað dæmi er þögnin, sem margt eldra fólk kann að meta og sækist eftir. Hjá yngra fólki má hins vegar víða sjá merki þess, að þögn vekur því tómleika og taugaveiklun.

Tæpast er unnt að sækja ýmsa þjónustu, sem beinist fremur að yngra fólki en eldra. Líkamsrækarstöðvar ganga fyrir grenjandi hávaða, sem dugar til að vega upp á móti heilsubatanum. Viðskiptavinirnir eru orðnir svo háðir hávaða, að þeir geta ekki verið án hans.

Gaman væri að prófa heilsuræktarstöð, sem beindist jafnt að líkama og sál og gæfi notendum kost á heilsurækt í þögn. Svo virðist sem menn þurfi að fara í önnur sveitarfélög til að finna svo sérvizkulegan stað, að hann gefi fólki kost á þekktri sálarnautn þagnarinnar.

Yngra fólk aflar sér upplýsinga á annan hátt en eldra fólk. Sameiginlegt einkenni nýrra leiða í fréttamiðlun er, að þær eru formlega séð ókeypis fyrir notandann, en eru ekki söluvara eins og gömlu leiðirnar. Pappírsmiðla kaupa menn en fá sjónvarps- og veffréttir ókeypis.

Svo virðist sem ungt fólk leiði ekki hugann að því, að enginn hádegisverður er ókeypis, svo að notað sé þekkt slagorð frjálshyggjunnar. Það er einhver, sem borgar fyrir fréttirnar, ef notendur þeirra gera það ekki í áskrift eða lausasölu. Og sá, sem borgar, ræður ferðinni.

Skýrast sést þetta af upplýsingum, sem fólk sækir á veraldarvefinn. Yfirleitt eru þetta lakari, gagnminni og ónákvæmari upplýsingar en þær sem fá má á prenti, til dæmis í ýmsum sérhæfðum tímaritum, og of oft beinlínis villandi upplýsingar af hagsmunaástæðum.

Margir, sem venja sig á að nota vefinn sem heimild, hirða ekki um að spyrja sig, hver sé hliðvörður upplýsinganna og hvort hann líti á sig sem umboðsmann notenda upplýsinganna eða umboðsmann þess aðila, sem borgar fyrir að hafa upplýsingarnar á vefnum.

Áður tíðkuðust skýr mörk milli auglýsinga annars vegar og frétta og annarra upplýsinga hins vegar. Með innreið sjónvarps fóru þessi mörk að verða óskýrari og á vefnum hafa þau alveg horfið. Þar með tapast lífsgæði, sem fólust áður fyrr í hinum skýru mörkum.

Rýrnun lífsgæðanna birtist ennfremur í, að erlend símafyrirtæki eru farin að búa sig undir að bjóða neytendum ókeypis símanotkun gegn því, að fluttar verði auglýsingar í upphafi símtals og síðan með reglubundnum hætti innan langdreginna símtala,

Heimur versnandi fer og lífsgæði rýrna, með skyndibitum í stað matar, hávaða í stað þagnar og ókeypis þjónustu í stað þeirrar, sem menn hafa greitt fyrir.

Jónas Kristjánsson

DV