Heitir eftir söðlasmiðum

Ferðir

Man eftir Berdaine-moskunni, klædda grænu postulíni, nyrzt í gamla bænum í Meknes. Einni af þremur konungaborgum í Marokkó. Hinar eru Fez og Rabat. Þar og í Marrakech eru einna stærstu miðalda-souk eða bazarar heimsins. Ég var í þessum borgum tvær vikur fyrir nokkrum árum og bjó sumpart við þröngar bazar-göturnar. Berdaine-moskan heitir eftir söðlasmiðum, sem hafa verkstæði sín við hlið hennar. Þar koma trúaðir nokkrum sinnum á dag og biðjast fyrir. Núna hrundi græni bænakall-turninn og nokkrir tugir fórust. Björgunarstörf voru erfið, því að farartæki nútímans komast ekki um ævaforn miðbæjarsund.