Helmingafélag hrökk í kút

Greinar

Viðbrögð formanna stóru hagsmunaflokkanna tveggja við auknu frelsi til útflutnings eru skiljanleg. Einhverjir hinna sex nýju aðila í útflutningi freðfisks til Bandaríkjanna gætu náð betri árangri en einokunarfyrirtæki Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins.

Engum kemur á óvart, að Framsóknarflokkurinn skuli gæta hagsmuna Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Það hefur hingað til verið og verður áfram aðalverkefni flokksins. Og uppákoman í Útvegsbankasölunni rifjaði upp gamalkunna stöðu Sjálfstæðisflokksins.

Fyrr á árum voru hinar tiltölulega tíðu ríkisstjórnir Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks kallaðar helmingaskiptastjórnir vegna þeirrar áráttu að misnota óhóflegt ríkisvald til að hygla Sambandinu annars vegar og nokkrum gælufyrirtækjum í Reykjavík hins vegar.

Í núverandi þríhyrningsstjórn hefur viðskiptaráðherra Alþýðuflokksins á skömmum tíma lent tvisvar milli þessara öflugu hagsmunaafla, sem stundum keppa og stundum starfa saman. Í Útvegsbankamálinu kepptu þau, en í nýja freðfiskmálinu vinna þau saman.

Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra fór sem gæzlumaður almannahagsmuna halloka í Útvegsbankamálinu. Þar skar hann ekki á hnútinn, svo að bankinn er enn óseldur og selzt tæplega fyrir svipaðar upphæðir og boðnar voru í slag Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.

Í freðfiskmálinu hefur Jón hins vegar gætt almannahagsmuna. Hann hefur þar dregið úr ríkisafskiptum í atvinnulífinu, hvatt til flutnings viðskiptahæfileika frá innflutningi til útflutnings og stofnað til aukinnar fjölbreytni í framboði íslenzkra útflutningsafurða.

Fyrirtækin sex, sem fengu tímabundna undanþágu til að selja freðfisk til Bandaríkjanna, hafa flest, ef ekki öll, unnið sér sess í útflutningi annarra fiskafurða. Þau hafa tekið þátt í að opna nýja markaði á nýjum stöðum fyrir nýjar afurðir. Þau eru þáttur í vaxtarbroddinum.

Þegar fyrirtækjum hefur verið treyst fyrir frjálsum útflutningi margs konar sjávarafurða til Evrópu og Japans og það með góðum árangri, er orðið tímabært að leyfa þeim að spreyta sig á freðfiski í Bandaríkjunum, í þágu íslenzkra almannahagsmuna, ekki sérhagsmuna.

Athyglisvert er, að formaður þess stjórnmálaflokks, sem löngum hefur þótzt vera flokkur einkaframtaksins og stundum hefur gælt við frjálshyggju, skuli sem forsætisráðherra snúast gegn framtaki viðskiptaráðherra og afgreiða það sem eins konar skort á mannasiðum.

Einnig er athyglisvert, að formaður stjórnmálaflokks Sambandsins skuli nú sem utanríkisráðherra vara fyrirtækin sex við að nota hið nýfengna frelsi, því að hann muni taka við utanríkisviðskiptunum eftir nokkrar vikur og hugsanlega afturkalla þetta verzlunarfrelsi.

Viðskiptaráðherra vakti í september athygli forsætis-, utanríkis- og sjávarútvegsráðherra á fyrirætlunum sínum. Auk þess eru hin veittu leyfi tímabundin. Þannig hefur hann gefið stjórnmálaflokkum hagsmunaaflanna gott og nægilegt tækifæri til áhrifa á gang mála.

Í freðfiskmálinu eru helmingaskiptaflokkarnir tveir að venju að gæta annarlegra sérhagsmuna. Fólk áttar sig ef til vill ekki á þessu, því að helmingaskiptin í freðfiskútflutningi eru í senn gamalgróin og klædd margþvældu kenningakerfi um snilld einokunarfyrirtækja.

Hávaðinn í freðfiskmálinu sýnir, að helmingafélagið hefur hrokkið í kút, eins og skiljanlegt er, þegar framtíð og fortíð takast á. Og máttur fortíðarinnar er mikill.

Jónas Kristjánsson

DV