Hengið heldur smiðinn

Greinar

Hin harða gagnrýni, sem lyfsalar, bæði í heildsölu og smásölu, hafa sætt að undanförnu, hefur beinzt að röngum aðila, því að sökin virðist í flestum tilvikum eiga heima í heilbrigðisráðuneytinu og undirstofnunum þess, sem eiga að hafa stjórn á lyfsölu í landinu.

Hið sama má segja um þann hluta gagnrýninnar, sem snúið hefur að læknum. Efnisatriðin benda til, að þar liggi sökin fremur hjá landlæknisembættinu, sem á að hafa og getur haft eftirlit með störfum lækna, þar með töldum ávísunum þeirra á lyf af ýmsu tagi.

Ekki hefur enn verið hrakin fullyrðing um, að átta læknar í Reykjavík gefi út helming allra lyfjaávísana í borginni, að einn læknir af tuttugu gefi út helming allra lyfjaávísana á Reykjanesi og að einn læknir gefi út helming allra lyfjaávísana í Árnessýslu.

Landlæknir hefur slíkar upplýsingar í höndunum og getur gripið til aðgerða. Það var einmitt gert fyrir áratug, árin 1976-1980. Á þeim tíma tókst að minnka um helming útgáfu ávísana á róandi lyf og svefnlyf, þar með talin lyf af valíumætt. Þetta var mikil hreinsun.

Síðan hefur því miður verið slakað á klónni. Ávísunum á þessi lyf hefur aftur fjölgað um fjórðung. Virðist því hæfilegt, að á ný verði gerð atlaga að þessari útgáfu, auk þess sem kannaðar verði ásakanir um, að útgáfukóngar sitji í leiguhúsnæði hjá lyfsölum.

Þótt lyf séu bráðnauðsynleg í mörgum tilvikum, kunna þau að vera óþörf og jafnvel skaðleg í öðrum tilvikum. Það gildir raunar um fleiri lyf en þau, sem notuð eru til að komast í vímu. Til dæmis virðist óhæfilegt frjálslyndi ríkja í útgáfu fúkalyfja handa börnum.

Viðurkennt hefur verið, að lyfjaframleiðendur eða dreifingaraðilar lyfja kosti ýmsan funda- og ferðakostnað lækna eða taki þátt í honum. Landlæknir þarf að snúast gegn þessum vanda og fá aðstöðu til að flytja meira af lyfjafræðslu úr höndum hagsmunaaðilanna.

Lyfjakostnaður er allt of hár hér á landi og fer óhugnanlega vaxandi. Á einum áratug hefur lyfjakostnaður utan sjúkrahúsa rúmlega tvöfaldazt í raunverði á hvern íbúa. Þetta er orðið að meiriháttar rekstrarlið í þjóðfélaginu, 2.500 krónur árlega á hvern íbúa landsins.

Það eru ekki lyfsalar, sem stjórna þessu, heldur ráðuneytið og stofnanir þess, er miðstýra öllum lyfjamálum landsins. Ráðuneytið getur hæglega lækkað smásöluálagningu um helming, úr 68% í 33%, svo að hún komist í það, sem hæfilegt er talið í Noregi og Svíþjóð.

Forsendur hárrar álagningar eru fallnar úr gildi. Lyfsalar blanda ekki lengur lyfin sjálfir, þurfa ekki að halda uppi miklum lyfjabirgðum og geta þar að auki skilað lyfjum, sem ekki seljast. Ráðuneytið á því að láta setja reglur um 33% álagningu í smásölu.

Ráðuneytið hefur ennfremur í hendi sér að fá breytt reglum um álagningu, til dæmis á þann hátt, að hún sé föst krónutala, en leggist ekki með auknum þunga á dýru lyfin. Einnig getur það hagað endurgreiðslum sínum þannig, að hvatt sé til notkunar ódýrra lyfja.

Loks hefur verið bent á, að ráðuneytið getur reynt að hagnýta sér kostina, sem markaðurinn hefur sýnt á ýmsum öðrum sviðum í ríkiskerfinu, svo sem í vegagerð. Ríkið greiðir meginhluta lyfjakostnaðar og getur hæglega efnt til útboða til að ná niður verðinu.

Ráðuneytið getur þetta allt, ýmist sjálft eða með breyttri skipan lyfjaverðlagsnefndar og annarra undirdeilda sinna. Ráðuneytið er smiðurinn, sem á að hengja.

Jónas Kristjánsson

DV