Hér hafa þeir hitann úr

Greinar

Freðfisksalar Íslendinga í Bandaríkjunum eru loksins byrjaðir að segja frá viðskiptatjóni vegna hvalveiðihugsjónar sjávarútvegsráðherra og meirihluta íslenzku þjóðarinnar. Til skamms tíma báru freðfisksalarnir sig vel, en eru nú byrjaðir að kveina í viðtölum á prenti.

Um helgina kom fram, að stór skyndibitakeðja hafði gert drög að samningi við Coldwater um að kaupa töluvert magn fiskbita. Á síðustu stundu hættu skyndibitamenn við að skrifa undir og sögðust ekki þora að kaupa af Íslendingum af ótta við missi viðskiptavina.

Freðfiskmarkaðurinn í Bandaríkjunum hefur áratugum saman verið hornsteinn útflutningstekna Íslendinga. Hann hefur látið á sjá á síðustu árum vegna aukinnar samkeppni annarra freðfiskþjóða og lækkaðs verðgildis dollarans. Nú bætist hvalveiðin við vandann.

Við eigum undir högg að sækja í fisksölu víðar en í Bandaríkjunum. Í Kanada og Vestur-Þýzkalandi hafa verið sýndar sjónvarpsmyndir af iðandi hringormum í fiski frá Íslandi. Þessar myndir fæla suma neytendur frá íslenzkum fiski og raunar frá fiski yfirleitt.

Andstæðingar hvalveiða hafa áttað sig á, hversu viðkvæmir markaðir okkar eru fyrir kvikmyndum af þessu tagi. Þeir hafa imprað á hótunum um að stuðla að frekari framleiðslu slíkra mynda og dreifingu þeirra á almennum markaði, en ekki komið því enn í verk.

Meiri áherzlu hafa þeir lagt á að hafa upp á íslenzku hvalkjöti í gámum í evrópskum höfnum, þar sem það er á leið til Japans. Þeim hefur tekizt að vekja almenna og neikvæða athygli í Þýzkalandi og Finnlandi á hvalveiðum okkar og tilraunum til að smygla hvalkjöti.

Erfitt hefur verið að sannfæra Þjóðverja og Finna um, að okkur beri skylda til að reyna að brjóta þarlend lög um flutninga á hvalkjöti um þarlendar hafnir. Þeir skilja ekki, hvaða brennandi hugsjónir knýja okkur til að ofbjóða gömlum kunningsskap við þessar þjóðir.

Hvalveiðar Íslendinga má einmitt flokka sem hugsjón fremur en atvinnugrein, á svipaðan hátt og einn helzti hagfræðingur Íslendinga flokkaði nýlega landbúnað sem listgrein fremur en atvinnugrein. Hugsjón hvalveiða á sér djúpar rætur í þrjózkum þjóðarvilja okkar.

Hvalveiðar eru orðnar nánast alveg marklaus þáttur í atvinnulífi okkar, enda er hvalafjöldinn, sem Bandaríkjastjórn heimilar okkur að veiða, orðinn svo lítill, að veiðarnar og vinnslan geta ekki talizt arðbær. Samt er eitthvað brýnt, sem knýr okkur til að halda áfram.

Í fyrsta lagi er útvegsráðherra okkar og raunar þjóðarmeirihluti haldinn brennandi vísindaáhuga á hinu afmarkaða sviði. Hugsjónafólkið talar um “vísindaveiðar” af slíkri innlifun, að telja verður vísindi vera forsendu iðjunnar, sem spillir fiskmörkuðunum.

Hvorki ráðherrann né meirihlutinn hafa nokkru sinni sýnt minnsta áhuga á vísindaafrekum á öðrum sviðum íslenzks atvinnulífs. Gott er því, að til sé þó eitt svið vísinda, þar sem við erum reiðubúin að fórna miklu fé og mikilli erlendri virðingu til að ná árangri.

Í öðru lagi er meirihluti þjóðarinnar afar andsnúinn því, að útlendingar séu að segja okkur fyrir verkum, og allra helzt, ef það er að undirlagi ríkra, bandarískra kerlinga, sem borgi brúsann fyrir Watson og grænfriðunga. Þetta telja menn árás á sjálfstæði Íslendinga.

Hugsjónir vísindaveiða og þjóðrækni munu vafalaust verma hjörtu ráðherra og þjóðar, þegar fiskmarkaðir hafa hrunið og lítið annað verður að orna sér við.

Jónas Kristjánsson

DV