Hereford

Veitingar

**
Steikin var ekki í steik

Farðu ekki í Hereford steikhús við Laugaveg 53 til að fá ofeldað lambakjöt og allra sízt ömurlegasta fisk bæjarins. Farðu heldur til að fá eðlisgott, vel verkað og meyrt U1 nautakjöt, sem er selt eftir vigt. Það er peninganna virði, þótt U2 sé innanfeitara og meyrara.

Vandlega hönnuð veitingastofa í nýdönskum stíl á annarri hæð rétt neðan við Kjörgarð snýr stórum gluggum að götunni. Ljóst parket á gólfi, ljós límviður í borðum, ljós sveigiviður í þægilega bognum stólum, ljósar leðursessur og ljós borðbúnaður er allt í samræmdum stíl.

Innan við aðalsalinn er glerveggur með viskí og armanjaki, síðan hringlaga salatbar undir stórum glerhjálmi og opið grilleldhús með hluta matsalar á aðra hönd og leðursetustofu á hina. Innst er hefðbundið eldhús. Hér er rúmgóð og þægileg tilfinning, næstum dönsk.

Þjónusta er fagleg og val einfalt. Pöntun er skrifleg og stöðluð. Þú velur kjötþyngd, steikingartíma, franskar eða bakaða, milli þriggja sósutegunda og fjögurra smjörtegunda. Salatbar kostar 490 krónur aukalega og er ekki mikils virði. Ekki heldur pönnusteikt grænmeti, 250 krónur extra.

Hér kostar steikin um 2900 krónur og þríréttað með húsvíni og kaffi 5800 krónur. Það má teljast sanngjarnt í stöðunni, svo framarlega sem menn fá sér nautakjöt. Það er af gamla íslenzka kyninu og bragðgott eftir því, selt sem ljúfustu lundir, hryggjarbuff og hryggjarbein af ýmsu tagi.

Forréttir reyndust ágætir, einkum rósmarín- og myntulegnir humarhalar, grillaðir og bornir fram með hvítlauk og fullsterkri mangópiparsósu. Sama var að segja um humarsúpuna, sem var full af góðum humri, en í bragðsterkasta lagi.

Gleymanlegar, en eigi að síður frambærilegar, voru hráar túnfiskþynnur í carpaccio-stíl, svo og snöggsteikt og innanhrátt nautakjöt á japanska vísu, borið fram eins og sushi með sojasósu og piparrót í wasabi-stíl í sérskálum á löngum og mjóum diski, svo og engifer, hvítlauk og pipar.

Frambærilegir voru eftirréttir, hefðbundinn karamellu- og súkkulaðibúðingur í brulée-stíl og meira spennandi ananasþynnur í carpaccio-stíl í súkkulaðisósu með kókoskrapi. Espresso var misgott, í annað skiptið beizkt og gott, en í hitt skiptið venjulegt kaffisull

Tveir aðalréttir fóru úr skorðum. Lambalundir voru pantaðar hálfhráar, en komu gegnsteiktar, nánast gráar í gegn, þar að auki ofsaltaðar, óvenjulega ómerkilegar. Enn verri var fiskur dagsins, frosin, örbylgjuþídd og þrælsteikt smálúða, sem minnti ekkert á þá smálúðu, sem ég býð heima hjá mér.

Mér sýnist kokkarnir á Hereford vanda sig við nautakjöt í samræmi við stranga forskrift, sem væntanlega fylgir þessari keðju veitingahúsa; komast skammlaust frá forréttum; en séu með allt í steik í öðrum aðalréttum en nautasteik.

Jónas Kristjánsson

DV