Síðustu embættaveitingar sýna, að siðferði stjórnmálanna hefur ekki batnað á undanförnum árum, þótt um það hafi verið fjallað meira en áður. Að gagnrýna stjórnmálamann fyrir spillingu er eins og að stökkva vatni á gæs.
Stjórnmálamenn líta nokkuð almennt á flokka sína sem eins konar ræningjaflokka til að safna herfangi handa hinum útvöldu, embættum og bitlingum handa þeim sjálfum og ódýrum lánum handa fjárhagslegum hornsteinum þeirra.
Menn raðast svo sem að nokkru leyti í flokka eftir pólitískum hugmyndum. En þess sjást næstum engin merki í stjórnarathöfnum flokkanna. Enda eru margir eingöngu í eiginhagsmunaskyni þáttakendur í stjórnmálum.
Björgvin Guðmundsson hefur verið ráðinn forstjóri Bæjarútgerðar Reykjavíkur og Ingi R. Helgason hefur verið skipaður forstjóri Brunabótafélags Íslands. Hvort tveggja er misbeiting valds fyrir opnum tjöldum.
Að máli Björgvins var skynsamlegar staðið, af því að baki hans stóð ekki einn flokkur, heldur borgarstjórnarmeirihlutinn og partur af minnihlutanum. Samt sem áður er veitingin pólitísk og efnislega út í hött.
Bæjarútgerðin þurfti engan nýjan forstjóra til viðbótar við hina tvo. Þeir halda báðir áfram á fullum launum, þótt annar þeirra heiti nú ráðunautur. Enda getur Björgvin ekki rekið útgerðina og ætlar sér ekki að reyna það.
Annars vegar verður hann kvígildi á stofnuninni og hins vegar mun hann taka að sér að útvega vildarmönnum vinnu hjá henni. Hinn opinberi drungi bitlinga og getuleysis mun spilla stofnun, sem hingað til hefur verið rekin af fagmönnum.
Að baki Inga stóð maðurinn með meinlætasvipinn, Svavar Gestsson, heilbrigðis- og tryggingaráðherra. Þar var ekki verið að hafa fyrir hrossakaupum, heldur gengið svo beint til verks, sem austantjaldsmönnum einum er lagið.
Ingi R. Helgason er að vísu mun hæfari starfsmaður en Björgvin og kann sitthvað til annarra verka en stjórnmálabrasks. Það er engan veginn víst, að hann valdi hinu öfluga tryggingafélagi vandræðum eða sé því gagnslaus.
En Ingi er ekkert inni í starfssviði félagsins. Í starfið hefði átt að fá reyndan tryggingafræðing, reyndan uppgangsmann í einhverju hinna minni tryggingafélaga eða bara fráfarandi forstjóra áfram, enda var það hægt.
Báðar þessar veitingar eru dæmi um kjark siðleysingja stjórnmálanna. Þeir víla ekki fyrir sér að misbeita valdi í allra augsýn, þótt þeir eigi von á gagnrýni. Þeir eru vissir um, að málið verði gleymt í næstu kosningum.
Og líklega hafa þeir rétt fyrir sér. Hvar man núna eftir siðlausum embættaveitingum síðasta árs eða ársins þar á undan? Og eru þeir ekki líka margir, sem telja slíkar veitingar vera eðlilegan þátt stjórnmálanna?
En þetta er ekki öll sagan. Almennir, heiðarlegir borgarar muna að vísu ekki, hvort þessi ráðherrann eða hinn hagaði sér verr á þessu kjörtímabilinu eða hinu. En þeir gera sér grein fyrir, að ekki er allt með felldu.
Hver stjórnmálamaður, sem gerir sig sekan um afglöp af þessu tagi, tekur dálítið af sameiginlegu álitsforðabúri stéttarbræðra sinna. Hann magnar þögula og ráðalausa fyrirlitningu almennings á stjórnmálunum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið