Brottfararsnið er komið á varnarliðið á Keflavíkurvelli. Orrustuþotum þess hefur verið fækkað um þriðjung og ratsjárþotur þess hverfa héðan í sumar. Jafnframt er afturkippur kominn í ráðagerðir um framkvæmdir í stöðinni. Þess munu sjást merki á næsta ári.
Bandaríska varnarliðið er smám saman að leka héðan, einmitt þegar lagzt hafa af nærri hálfrar aldar deilur um veru þess. Loksins þegar andstaðan gegn því hefur hjaðnað niður í næstum ekki neitt, er það byrjað að tygja sig brottfarar, svo sem þotufækkunin sýnir.
Svokallaðir sérfræðingar Íslendinga í öryggismálum héldu í janúar ráðstefnu um, að gildi herstöðvarinnar á Keflavíkurvelli hefði ekkert minnkað. Þetta umræðuefni var fjarri sanni, svo sem betur hefur komið í ljós á síðustu mánuðum. Gildi hennar hefur í raun hrapað.
Treglega hefur gengið að fá mannvirkjasjóð Atlantshafsbandalagsins til að kosta frekari framkvæmdir á Keflavíkurvelli á næsta ári og næstu árum. Sendimenn hafa farið sníkjuferðir til Bruxelles, en ekki haft árangur sem erfiði. Framtíð varnarliðsframkvæmda er í voða.
Ekki bætir úr skák, að minnkað gildi herstöðvarinnar á Keflavíkurvelli hefur dregið úr vilja bandalagsþjóða okkar til að sætta sig við sérkennilegt fyrirkomulag varnarliðsframkvæmda hér á landi. Þær heimta núna alþjóðleg útboð í stað einokunar Aðalverktaka.
Hermangið flýtti þannig fyrir dauðateygjum varnarliðsins. Mangið var alltaf ósiðlegt og ekki samboðið okkur, en útlendingar sættu sig við það, þegar kalda stríðið stóð, til að auka hagsmuni íslenzkra aðila af dvöl varnarliðsins og af aðild að Atlantshafsbandalaginu.
Það er eins gott, að við gerum okkur grein fyrir, að næsta áfall á eftir samdrætti fiskistofna og aflakvóta verður tekjumissir og atvinnumissir á Suðurnesjum. Sú kreppa mun byrja fyrir alvöru á næsta ári, svo að tímabært er að reyna að mæta henni af skynsemi.
Með hverjum mánuði, sem líður, minnka líkur á, að kommúnistar geti bylt nýju stjórninni í Rússlandi. Með hverjum mánuði, sem líður, verður ótrúlegra, að Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið telji sig hafa ráð á að reka herstöð langt frá helztu ólgusvæðum heimsins.
Líklegt er, að bandarískir þingmenn sjái sér aukinn hag í að krefjast heimflutnings bandarískra hermanna frá útlöndum, þegar þeir átta sig betur á, að kalda stríðinu er lokið og útivistin kostar morð fjár. Einn góðan veðurdag láta þeir skera niður Keflavíkurherstöðina.
Ef til vill tekst Íslendingum að sýna nágrannaþjóðunum fram á, að hér á landi megi í framtíðinni reka eins konar hernaðarlegt umferðareftirlit í, á og yfir Íslands- og Grænlandshafi; á sama hátt og borgaralega flugumferðarstjórnin á svæðinu er rekin hér á landi.
Ef grundvöllur verður fyrir hernaðarleg störf á Íslandi á næstu áratugum, munu þau nær eingöngu vera á hátækni- og tölvusviðum. Lítið verður hins vegar spurt um mannskap til að reisa flugskýli og hermannablokkir. Hefðbundið hermang er að syngja sitt síðasta vers.
Örlög ráða því, að við þurfum ekki öllu lengur að rífast um, hvort hér skuli vera her eða ekki her og hvort hér skuli vera hermang eða ekki hermang. Herinn fer og hermangið leggst niður, hvort sem einhverjum líkar betur eða verr. Við ráðum engu í þeirri framvindu.
Til marks um ódugnað landsfeðra okkar má hafa, að þeir hafa ekki reynt ráðagerðir um, hvernig mætt verði afnámi hermangs og brottflutningi varnarliðs.
Jónas Kristjánsson
DV