Herinn fer samt

Greinar

Bandaríkjastjórn er ekki alveg eins tillitslaus við gamla bandamenn sína og hún hefur lengst af verið. Illt gengi einstefnu hennar hefur leitt til aukinna viðræðna við erlenda ráðamenn, þar á meðal við landsfeður Íslands um framtíð umdeildrar eftirlitsstöðvar á Keflavíkurflugvelli.

Eftir nokkra snúninga með japli og jamli verður niðurstaðan hin rökrétta í stöðunni. Herinn fer. Bandaríkjastjórn er orðin ofbeldishneigðari í þriðja heiminum en herafli hennar stendur undir. Þess vegna þarf hún að flytja mannskapinn og tæknina á Keflavíkurflugvelli til mikilvægari hernaðarstaða.

Ísland er orðið afskekkt í heiminum. Kalda stríðinu er lokið. Rússland hefur tekið við af Sovétríkjunum og hefur misst áhugann á þjóðbraut vígvéla suður eftir íshafinu beggja vegna Íslands. Hernaðarleg áhugamál Rússlands eru í suðri, þar sem hægt er að abbast upp á veikburða ríki.

Stór hópur Suðurnesjamanna missir atvinnu á vellinum, björgunarþyrlur hverfa og Ísland þarf að leggja meira fé til flugs á Keflavíkurvelli. Þetta er óþægilegt til skamms tíma, en nauðsynlegt, þegar frá líður. Við getum ekki haldið uppi hermangi, þegar viðsemjandinn hefur misst áhuga á hersetu.

Vallarvinnan dregur úr áhuga Suðurnesjamanna að skapa ný atvinnutækifæri. Ekki er heilbrigt, að öflug sveitarfélög og íbúar þeirra séu háð skammgóðum vermi hersetu. Samfélögin suður með sjó verða að horfast í augu við veruleikann. Þau þurfa að vinna fyrir sér eins og önnur samfélög í heiminum.

Flugvélarnar eru farnar, en þyrlurnar eru enn eftir. Við þurfum nú þegar að efla flugdeild landhelgisgæzlunnar til að mæta ástandinu, sem verður, þegar þær fara. Miklu ábyrgara er að vera sjálfum sér nógur í björgunarmálum í tæka tíð en að dilla sér umhverfis verndara, sem hefur misst áhugann.

Við þurfum líka að fara að horfast í augu við að geta ekki endalaust ýtt kostnaði við borgaralegt flug um völlinn yfir á herðar Bandaríkjanna. Þetta er okkar mikið notaði millilandavöllur og við verðum hreinlega að taka því að þurfa fyrr en síðar að kosta rekstur hans að öllu leyti.

Allt kostar þetta fé. Þess vegna eru landsfeður sífellt að dilla sér umhverfis ráðamenn Bandaríkjanna til að fresta hinu óhjákvæmilega eða hægja á þróuninni í átt til þess. Miklu farsælla til langs tíma fyrir þjóðina er að borga fyrir sig eins og aðrar og vera sjálfstæð í umheiminum.-

Herinn fer, frekar fyrr en síðar. Hlutverk stjórnvalda er að fara að hætta að væla út af hinu óhjákvæmilega og fara að undirbúa brottförina, svo að truflunin verði sem minnst.

Jónas Kristjánsson

DV