Hermangið hrynur

Greinar

Komið hefur fram, sem spáð var í leiðara DV í maí, að mannvirkjasjóður Atlantshafsbandalagsins mun ekki öllu lengur nýtast til að halda uppi atvinnu á Suðurnesjum og efla eftirlaunasjóði helztu alfonsa fjallkonunnar í hinum þekktu hermangsfyrirtækjum landsins.

Deildir Bandaríkjaþings hafa sameiginlega komizt að þeirri niðurstöðu, að framlag Bandaríkjanna til mannvirkjasjóðsins verði skorið niður úr 11,5 milljörðum króna í 3,3 milljarða króna á næsta ári. Búast má við, að önnur ríki bandalagsins minnki líka við sig.

Þetta er bara fyrsta skrefið í fyrirsjáanlegum brottflutningi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Enginn pólitískur vilji sést lengur í Bandaríkjunum til að halda úti dýrri herstöð fjarri öllum hugsanlegum átakasvæðum. Ísland er ekki lengur hernaðarlega mikilvægt.

Varnarstöðin á Keflavíkurvelli er rekin samkvæmt beinu samkomulagi Íslands og Bandaríkjanna, þannig að Atlantshafsbandalagið er aðeins óbeinn aðili. Bandaríkjamönnum hefur þó tekizt að nýta mannvirkjasjóð bandalagsins til að kosta framkvæmdir á staðnum.

Nú er annaðhvort um það að ræða, að áhrif Bandaríkjanna og gæluverkefna þeirra munu minnka í mannvirkjasjóðnum eða að önnur helztu ríki bandalagsins minnka framlög sín í samræmi við bandaríska niðurskurðinn. Í báðum tilvikum situr Keflavík á hakanum.

Þetta er óhjákvæmileg afleiðing þess, að kalda stríðinu er lokið milli austurs og vesturs. Atlantshafsbandalagið hefur ekki enn látið draga sig inn í gróft útþenslustríð Serba á vesturlandamærunum og mun því tæplega láta draga sig inn í önnur stríð í Austur-Evrópu.

Jafnvel þótt það hefði afskipti af staðbundnum átökum, þá verða þau fjarri Keflavíkurflugvelli. Þau verða ekki á Kólaskaga, heldur á Balkanskaga og í Kákasus. Eina gildi flugvallarins er langsótt og tengist millilendingum í flutningum hergagna frá Bandaríkjunum.

Til slíkra millilendinga þarf góðar flugbrautir og nokkuð af olíubirgðum, sem hvort tveggja er til á Keflavíkurflugvelli. Ekki þarf þvílík mannvirki, sem helztu hermangarar landsins hafa árangurslaust verið að reyna að sníkja hjá Atlantshafsbandalaginu í sumar og haust.

Atlantshafsbandalagið hefur á næstu árum nóg að gera við að halda lífi við nýjar aðstæður og reyna að framleiða handa sér nýtt hlutverk. Það hefur ekki tekizt í Serbastríðinu og verður án efa erfitt. Og Keflavíkurflugvöllur er ekki þáttur í þessari lífsbaráttu.

Við þetta bætist sú mjög svo ánægjulega staðreynd, að Atlantshafsbandalagið getur ekki lengur sætt sig við þá rotnun, að Keflavíkurflugvöllur sé notaður til að mjólka peninga inn á bankareikninga hermangara í Sameinuðum verktökum og Íslenzkum aðalverktökum.

Eina von Íslands til að halda lífi í atvinnu vegna Keflavíkurvallar er að freista erlendra fyrirtækja til að stofna fríhafnarfyrirtæki á Suðurnesjum í tengslum við flugvöllinn. Ríkisstjórnin hefur lagt bjarg í götu þessa með því að endurnýja einokunarsamning við Flugleiðir.

Suðurnesjamönnum ber nú að nota hrun varnarliðsframkvæmda til að knýja þungfæra ríkisstjórn til að láta af hneyksli, sem sker í augu þeirra, er hugsanlega gætu látið freistazt til að framleiða atvinnu. Þessir útlendu aðilar munu aldrei láta Flugleiðir mjólka sig.

Því miður höfðu Íslendingar ekki frumkvæði til að hreinsa spillingu Keflavíkurflugvallar. Það verða útlendingar að gera fyrir okkur. Og þeir eru byrjaðir.

Jónas Kristjánsson

DV