Hernaðaráætlunin mistókst

Punktar

Michael R. Gordon segir í New York Times, að bandarískir herstjórar hafi komizt að raun um, að Írakar séu almennt andvígir innrásinni og beiti innrásarliðið skæruhernaði, sem hægir á flutningum vopna, vista og hermanna til Bagdað. Í stað þess að leggja beint til atlögu gegn Bagdað, eins og áður var ákveðið, er nú búið að fresta þeirri árás og í staðinn lögð áherzlu á að uppræta skæruliða í suðurhluta landsins. Í kjölfar þess er ráðgert að hefja miklar matargjafir og aðra aðstoð við sjíta í suðurhlutanum í þeirri von, að þeir snúist til fylgis við innrásina. Það eru nefnilega mestu vonbrigði innrásarliðsins, að sjítar hafa yfirleitt snúist gegn innrásinni. Það er raunar haft til marks um, að ráðamenn í Bandaríkjunum hafa ekki hugmynd um, hvernig fólk í öðrum löndum hugsar.