Herramannsmatur í Höfninni

Veitingar

Í verbúðunum við Geirsgötu eru komnar búðir og matstaðir fyrir ferðamenn, í nágrenni hvalaskoðunarskipa. Þar rekur Brynjar Eymundsson kokkur matstaðinn Höfnina með áherzlu á fiskrétti. Á kvöldin er meðalverð, svipað og á Þremur frökkum. Í hádeginu er súpa og fiskur í boði á 1680 krónur. Gulrótarsúpa með kotasælu og brauði var veruleg fín, en brauðið var ekki merkilegt. Grillaður hlýri var mjög næmt eldaður herramannsmatur með góðum kartöflum og mildri grænpiparsósu, svo og fallegu og fersku salati. Staðurinn er hvítmálaður og fremur hrár, með grófu burðarvirki úr timbri. Árvökulir fagmenn í þjónustu.