Landvinningastríð Serba í Króatíu hefur skýrt stöðuna á því vandræðasvæði Balkanskagans, sem til skamms tíma var haldið í óeðlilegu ríkjasambandi, er nefndist Júgóslavía. Árás Serba setur varanlegan endapunkt við ríkjasambandið og hugtakið Júgóslavíu.
Yfirgangur Serba kemur í kjölfar heimsóknar James Baker, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til Serbíu í sumar, þegar hann lýsti bandarískum stuðningi við hugtakið Júgóslavíu og varaði Króata og Slóvena við mótþróa og öðrum tilburðum til sjálfstæðis.
Skaðleg afskipti Bandaríkjastjórnar af þessu máli eiga sér tvær skýringar. Í fyrsta lagi hafa bandarísk stjórnvöld dálæti á ríkjandi ástandi í útlöndum, hvert sem það er hverju sinni. Þau andæfa breytingum, er raska hefðbundnum uppdráttum í utanríkisráðuneytinu.
Í öðru lagi hafa Bandaríkjamenn ríka þörf fyrir að réttlæta tilveru yfirþjóðlegra sambandsríkja á borð við Bandaríkin. Júglóslavía er sambandsríki og þar með eiga íbúar þar að bandarísku áliti að vera til friðs með sama hætti og íbúar Bandaríkjanna eða Sovétríkjanna.
Þessar tvær kórvillur í utanríkisstefnu Bandaríkjanna skýra stuðning þeirra við Gorbatsjov gegn Jeltsín, við Sovétríkin gegn Rússlandi, við Saddam Hussein gegn Kúrdum og sjítum. Stuðningur þeirra við Júgóslavíu er rökréttur þáttur í heildarrugli utanríkismála.
Í ríkjum Evrópubandalagsins eru ráðamenn smám saman að gera sér grein fyrir því, sem fyrir löngu var vitað, að Júgóslavía eigi enga framtíð fyrir sér og að viðurkenna beri sjálfstæði þeirra þjóða, sem vilja stofna eigin ríki á rústum tímaskekkjunnar á Balkanskaga.
Hingað til hafa ráðamenn þessara ríkja látið sér nægja að vera með hótanir um að viðurkenna fullveldi Slóveníu og Króatíu. Sambandsher Serba tekur ekkert mark á þessum hótunum, enda eru þær endurteknar í síbylju, án þess að neinar aðgerðir fylgi í kjölfarið.
Sífur ráðamanna í ríkjum Evrópubandalagsins sýnir, hve veikt bandalagið er pólitískt, þótt það sé efnahagslega sterkt. Það getur sett Serbíu í efnahagsfrystingu, en það getur ekki fengið Serba til að taka nokkurt mark á sér. Svo skýr geta takmörk peningavaldsins verið.
Samt eru aðgerðir sambandshers Serba mjög hættulegar. Við getum ímyndað okkur hliðstæðu við, að Rauði herinn færi í landvinningastríð fyrir Rússa á hendur Úkraínu eða Eystrasaltslöndum. Sambandsher Sovétríkjanna kemur ekki fram á svo ábyrgðarlausan hátt.
Það er vont fyrir Vestur-Evrópu, að á landamærum hennar sé taumlaus her, sem fer sínu fram án tillits til löglegra stjórnvalda, og hlítir engum ráðum, heldur stefnir leynt og ljóst að því að innlima erlend landsvæði í Stór-Serbíu, sem senn verður komið á laggirnar.
Getuleysi Vestur-Evrópu er þeim mun grátlegra fyrir þá sök, að fyrr í sumar var hægt að hræða serbneska sambandsherinn frá þegar framkvæmdri innrás í Slóveníu. Hann flúði þaðan undan hótunum að vestan. Þeim sigri hefði Vestur-Evrópa átt að fylgja harðar eftir.
Nú hefur sambandsher Serba áttað sig á veikleika Vestur-Evrópu og hagar sér í samræmi við það í Króatíu. Senn líður að því, að draumurinn um Stór-Serbíu víkkar í landvinningastríð á hendur Slóvenum, Makedóníumönnum og hverjum þeim, sem stendur í veginum.
Því miður eru ekki miklar horfur á, að Vestur-Evrópa hafi pólitíska eða hernaðarlega burði til að koma í veg fyrir, að draumurinn rætist um herskáa Stór-Serbíu.
Jónas Kristjánsson
DV