Hestamenn í Sturlungu

Hestar

Af fornritunum er hestamanninum mestur fengur í Sturlungu. Hún er skrifuð af nafnkunnum mönnum, sem tóku þátt í langferðum. Sumum leiðum er beinlínis lýst, meðal annars yfir Sprengisand. Finna má frækilegar sögur, svo sem vetrarferð Þórðar kakala frá Þingvelli vestur í Breiðafjörð. Og ferð Kolbeins unga á sama tíma úr Miðfirði yfir Tvídægru vestur í Hvítársíðu og síðan á hæla Þórði vestur Mýrar. Á leið sinni frá Þingvelli til Helgafells riðu menn Þórðar einhesta um 200 kílómetra leið á rúmlega 30 klukkustundum. Enda var þá um líf og dauða að tefla. Slíkar þolreiðir þekkjast engar núna.