Hestamenn orðnir snyrtilegir
Eiðfaxi spurði verzlunarstjóra nokkurra hestavöruverzlana um breyttar áherzlur viðskiptavina, tízkustrauma og varanlegar breytingar á vöruvali fólks á vetrarvertíðinni. Svörin voru fjölbreytt, en flestir voru sammála um, að hestamenn verðu sífellt meiri peningum í fatnað og væru mun betur til fara á hestbaki en áður var
Arnar Guðmundsson í Ástund:
Við seljum meira af ópottuðum skeifum en áður og gjarnan með uppslætti. Fleiri tegundir loftpúðahnakka eru komnar til sögunnar og hnakkar eru aftur farnir að sækja á dýnurnar, sem voru í tízku á tímabili. Undirdýnur seljast betur en áður og yfirbreiðslur eru farnar að seljast. Amerísku mélin með koparflögum og þriggja málma mél eru vaxandi hluti af sölu méla. Sala á græjum fyrir hringtaum og frumtamningar hefur aukizt. Skór og skóbuxur hafa leyst stígvél og hefðbundnar reiðbuxur af hólmi. Vatnsgallar hafa meira eða minna vikið fyrir vatnsheldum öndunarefnum á borð við goritex. Hjálmar seljast vel, eru öruggari en áður, efnismeiri, en hafa ekki þyngzt. Hestamenn kaupa meira af fatnaði en áður, eiga meira til skiptanna og eru mun betur til fara við útreiðar og þjálfun.
Birgir Skaptason í Ístölti:
Mesta breytingin er fólgin í því, að fólk gerir betur við sig í fatnaði og reiðtygjum en áður. Það er snyrtilega klætt, þegar það ríður út á veturna. Aukizt hefur sala á sérhæfðum fatnaði fyrir hestamenn. Einnig er meira um, að menn hafi sérstök reiðtygi fyrir hvern hest, einkum sérstakan beizlabúnað. Þetta fylgir reiðskólunum og aukinni fagmennsku. Hirðingarvörur á borð við hestasjampó seljast líka miklu meira en áður, hugsanlega vegna þess að hitaveita er komin í hesthús og þau eru loftbetri og lykta ekki lengur. Þá eru hjálmar orðnir betri en áður og nú eru nær eingöngu í boði hjálmar samkvæmt Evrópustaðli.
Bjarni Þór Sigurðsson í Hestum og mönnum:
Uppsláttarskeifur seljast í auknum mæli. Einföld höfuðleður án kverkólar og ennisbands eru í aukinni sölu. Sívöl höfuðleður eru að koma inn í vaxandi mæli. Hirðingarvörur hafa stóraukizt í sölu, ef til vill vegna þess að fólk heldur hrossunum betur til í húsum, þar sem búið er að leggja hitaveitu. Fólk gerir meira við sig í fatnaði en áður, á til dæmis meira til skiptanna. Almennt er fólk næmara fyrir verði en áður og leitar að vöru á sanngjörnu verði. Við reynum að bregðast á réttan hátt við þeirri breytingu á markaðinum.
Gunnar Már Gunnarsson í MR-búðinni:
Við seljum meira en áður af vandaðri höfuðleðrum og höfuðleðrum án kverkólar. Hringamél breiðast út á kostnað stanga. Stígvél eru að víkja fyrir reiðskóm og gegningaskóm og þar af leiðandi eru skóbuxur að ryðja stígvélabuxum til hliðar. Sala á hnökkum er farin að aukast á kostnað sölu á dýnum, enda er verðmunur ekki mikill. Stóraukizt hefur sala á magnesíumblokkum, sem ekki renna og henta því fyrir gerði. Að flestu öðru leyti eru innkaupavenjur hestamanna svipaðar í vetur og þær hafa verið undanfarna vetur. Við höfum tekið inn fleiri vörutegundir eftir að Töltheimar hættu og erum ánægðir með söluna, sem er jöfn og góð.
Ragna Gunnarsdóttir í Baldvin & Þorvaldi:
Þrískipt mél seljast núna miklu meira en hefðbundin mél, sömuleiðis einföld höfuðleður eða höfuðleður með ennisól. Menn kaupa meira en áður sérsmíðaða hnakka, sem við framleiðum eftir óskum hvers og eins. Sala í skálmum, saumuðum eftir máli, er stöðug, leðurskálmum fyrir útlendinga og rúskinnsskálmum fyrir Íslendinga. Fólk er snyrtilegra til fara en áður, þegar það ríður út og kaupir meira af sérhönnuðum reiðfatnaði. Stígvél eru að hverfa úr sölu og leðurskór með teygju, með eða án stáltár, eru farnir að yfirgnæfa gegningaskó, sem eru úr gúmmí að neðan. Sala á pottuðum skeifum eykst á kostnað ópottaðra og uppsláttarskeifur er sífellt meira keyptar.
Nýtt í búðunum
Ástund er farin að bjóða Eyjólfs-stangir, hannaðar af Eyjólfi Ísólfssyni. Stangirnar kosta 19.000 og 20.000 krónur.
Hestar og menn eru komnir með samtvinnaða þverbakstösku með hliðartöskum úr vatnsheldu og níðsterku næloni, framleiddar af Top Reiter eftir amerískri fyrirmynd. Verðið er 6.900 krónur.
Ístölt er búið að fá í sölu Body Guard öryggisúlpur úr næloni frá Mountain Horse. Þetta eru léttar úlpur með árekstrapúðum í fóðrinu. Púðarnir eru fyrirferðarlitlir og þá má fjarlægja. Tilboðsverð er 19.900 krónur.
MR-búðin er farin að selja Jacson fatnað fyrir hestamenn. Meðal annars eru komin Lyx regnföt, jakki og buxur úr sérstaklega styrktu og vatnsþéttu næloni með soðnum saumum og rennilásum upp skálmarnar, svo og bandi undir iljar. Verðið er 8.900 krónur fullorðinsstærð.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 3.tbl. 2003