Hestaráðstefna

Hestar

10. desember 1999 var undirritaður samningur milli ríkis og hestmanna um stofnun Hestamiðstöðvar Íslands og svo Átaksverkefni í hrossarækt og hestamennski. Samningurinn fól í sér að ríkið styrkti Átaksverkefnið um 15 milljónir á ári í 5 ár og Hestamiðstöð Íslands 25 milljónir á hverju ári auk þess sem sveitafélagið í Skagafirði lagði út 15 milljónir á ári.

Á dögunum hélt Landbúnaðarráðuneytið ráðstefnu um framfarir og þróun í hrossarækt og hestamennsku. Var tilgangurinn að kynna þessi verkefni og hvað þeim hefur áorkað þar sem samningnum er að ljúka í árslok.

Reiknaði ekki þessum árangri

Guðni Ágústson, Landbúaðarráðherra

Mér hefur fundist hestamennskan hafa vaxið og dafnað vel síðastliðin ár. Ég sé það greinilega út um gluggan minn við Ölfusána þegar stóru jepparnir fara hjá hver á eftir öðrum með hestakerrur í eftirdragi sem einna helst minna á hesthús. Ég sé það einnig á þeim fjölda hestamiðtöðva og reiðhalla sem rísa út um allt. Ég þakka hestamönnum drifkraftinn sem þeir hafa sýnt í verki með stuðningi sínum við þessi verkefni. Ég reiknaði ekki með því að þessir peningar sem færu í þetta myndu nýtast svona vel eins og raun ber vitni.

Ný staða Hestafulltrúa?

Sveinbjörn Eyjólfsson, stjórnarformaður Hestamiðstöðvar Íslands:

Upphafið að þessu átaki var í rauninni 1998 þegar hugmyndin fæddist. 1999 var svo undirritaður samning milli ríkisins og sveitafélagsins til fimm ára.

Verkefnið var hugsað sem byggðartengt átaksverkefni sem átti að efla starfsemi tengda hestinum, ekki endilega bara í Skagafirði heldur einnig á landinu öllu. Það var nokkuð gott að selja framámönnum hugmyndina að HMÍ enda góð hugmynd þar á ferð.

Ef það er eitthvað sem mér finnst við hafa staðið okkur verst í voru kynningarmál. Annars hefur þetta gengið vonum framar. Það sem ég sé fyrir mér koma í kjölfar Hestamiðstöðvarinnar er nýtt stöðugildi sem myndi kallast Hestafulltrúi. Starf hans gæti byggst á samstarfi við Flugu, félagið sem á og rekur reiðhöllina á Svaðastöðum, hesthús og sýningar tengdar Flugu, Vindheimamelar, ýmis þróunar og markaðsverkefni í sambandi við hestinn, ráðgjöf og verkefnastjórn fyrir hið opinbera í ákveðnum málum og svo sértæk verkefni fyrir félagasamtök. Þessi staða væri kannski ekki ósvipuð stöðu ferðamálafulltrúa sem eru víðsvegar um land. Það ætti að skoða þetta sem hugsanlegt samstarf milli ríkis og sveitafélags. Þetta starf yrði mun umfangsminna en HMÍ. Ef það reyndist vel væri svo hugsanlega hægt að keyra það einnig í öðrum landshlutum.

Margt sem var gert

Ingimar Ingimarsson, framkvæmdarstjóri HMÍ:

Í flestum tilfellum hefur HMÍ ekki átt beinan þátt í verkefnunum heldur aðallega lagt til fjarmagn. Það sem var meðal annars lagt upp með var heimasíða, veftímarit og/eða spjallrás. Í árslok 2000 keypti HMÍ í Eiðfaxi.net fyrir um fimm miljónir. Síðan skráði HMÍ sig fyrir hlutafé í Eiðfaxa ehf. fyrir 9 milljónir.

Annað verk sem lagt var upp með var að koma á laggirnar miðlægum gagnabanka sem tæki yfir nánast allt sem kæmi íslenska hestinum við. 2002 var svo stofnað Sögusetur íslenska hestsins en það heldur utan um og rekur slíkan gagnabanka auk þess sem það sér um að safna inn upplýsingum.

MótaFengurKappi var annað stórt samstarfsverkefni HMÍ og LH. MótaFengurKappi er skráningar og reikniforrit til notkunar á hestamótum. Reiknað er svo með því að gagnabanki verði til út frá þessu forriti sem fer svo inn í WorldFeng. MótaFengurKappi nýtir sér einnig WorldFeng við skráningu hrossa.

Svo voru það markmið sem við lögðum upp með sem lúta að menningu hestamanna. Í því sambandi má nefna ráðstefnu sem HMÍ stóð fyrir um hestinn og hlutverk hans í menningu þjóðarinnar. Í vinnslu er svo bók sem Gísli B. Björnsson og Hjalti Jón Sveinsson ritstýra. Vinnuheiti hennar er Heimur íslenska hestsins. Þessi bók á að taka yfir sögu hestsins frá upphafi í máli og myndum. HMÍ er meðútgefandi bókarinnar.

Í markmiðum okkar var svo einnig talað um að koma á námi í hestamennsku við Fjölbrautaskóla Norðurlandsvestra. Var það gert í samstarfi við Átaksverkefnið í hrossarækt og hestamennsku. Við prufukeyrðum stigskipta reiðnámið sem Átaksverkefnið kom af stað. Það gekk vel og fékkst dýrmæt reynsla sem nýttist svo í að móta námsefnið frekar.

Við komum svo að var gæðaátak hjá hrossaræktarbúum. Það var samstarfsverkefni við Hólaskóla. Markmiðið var að auka gæði og hagkvæmni hrossabúskapsins. 11 bú tóku þátt í þessu verkefni og er það núna fullum gangi.

Gæði í hestatengdri ferðaþjónustu var verkefni sem við unnum með Hólaskóla og Samtaka ferðaþjónustunnar. Þetta verkefni er einnig enn þá í gangi. Markmiðið verkefnisins er að þróa gæða vinnu og gæða vitund í greininni.

Reiðmennska og reiðþjálfun fattlaðra var inn í markmiðum okkar. Tókum við upp samstarf við Íþróttasamband fattlaðra í þessu máli. Við fengum til liðs við okkur erlenda kennara sem komu hingað til lands og héldu tvö námskeið. Við veittum svo tvo námsstyrki til tveggja reiðkennara sem fóru erlendis til þess að mennta sig sérstaklega í þessum fræðum.

Það var getið um Laufskálarétt í viðskiptaáætlun til frekari þróunar. HMÍ beitti sér fyrir því að stóðréttardagar á norðurlandi vestra voru samræmdir. Í kringum Laufskálarétt hefur svo verið komið á laggirnar sölusýningu og uppskeruhátíð Skagfirðinga. Það má svo ekki gleyma réttarballinu sjálfu þar sem síðast mættu um 2000 manns.

HMÍ keypti sýningarréttinn að ,,Til fundar við hestinn” af Hestasporti ehf. Árið 2003 var svo stofnað Íslenskar hestasýningar ehf. sem hefur það að markmiði að halda úti og þróa frekar hestasýningar fyrir ferðamenn. Samstarf er við Varmalæk og Flugu hf. um framkvæmd sýninganna. Þessar sýningar eru stuttar og markvissar kynning á hestinum, kostum hans og sögu.

Við héldum vel sótt málþing um reiðvegi á Hólum 2001 og heppnaðist það ágætlega.

Í burðarliðnum er átaksverkefni Hólaskóla og Fagráðs í hrossarækt sem er hugsað til eflingar rannsókna, þekkingar og fræðastarfs í greininni. HMÍ styður það verkefni.

HMÍ kom að stofnun Umboðsmanns íslenska hestsins með fjárstuðningi. Honum er ætlað að kynna og markaðssetja íslenska hestinn erlendis eins og flestir vita.

Það er í undirbúningi að endurvinna kynningar- og fræðsluefni sem mun nýtast á sýningum og kynningum hér á landi og erlendis. Það er jafnframt verið að hugsa um að gera handbók sem mun fylgja með hverjum seldum hesti. Það verkefni er mjög spennandi og mun vonandi sjá dagsins ljós á þessu ári.

Íslensk hrossakynning ehf. var til fyrir lífdaga HMÍ en HMÍ keypti 40% hlut fyrirtækinu. Fyrirtækið hýsir heimasíður hrossaræktenda og tengda starfsemi. Vonin er að þetta verði upplýsingaveita fyrir hestatengda starfsemi í Skagafirði.

Reiðhöllin Svaðastöðum var stofnuð 1. júlí 2000. HMÍ var stofn hluthafi og á í dag 40 milljónir í hlutafé. Reiðhöllin hefur að mínu mati lyft grettistaki fyrir hestamennskuna i Skagafirði.

Þetta er bara hluti þeirra verkefna sem við komum að sem ég tek hérna til. Þetta eru kannski þau viðamestu en við tókum þátt í nokkuð mörg minni verkefnum.

Saga íslenska hestsins vistuð

Björn Kristjánsson, forstöðumaður Söguseturs ísl. hestsins á Hólum:

Saga íslenska hestsins er samofin sögu þjóðarinnar og er hann einn af þeim þáttum sem gerðu það mögulegt að búa á þessu landi. Hesturinn hefur skipað stóran sess í menningu landsins og er þar um merkilegan arf að ræða sem vert er að sitja vörð um.

Markmið Sögusetursins er að vera alþjóðleg miðstöð þekkingar og fræðslu um sögu íslenska hestsins.

Helstu verkefnin hafa verið til að byrja með að vinna að rannsóknum og athugun á sögu íslenska hestsins í þeim tilgangi að skapa íslenska hestinum veglegt heimildarsafn um sögu hans. Sögusetrið mun búa til og vista gagnagrunn um minjar og aðrar heimildir.

Sögusetrinu er ætlað að standa fyrir sýningum innanlands og utan sem varpa ljósi á sögu hestsins. Við stöndum svo fyrir málþingum, fyrirlestrum og námskeiðum sem varða sögu hestsins.

Við erum með vefsíðu, sogusetur.is. Þar er að finna margvíslegan fróðleik um íslenska hestinn og sögu hans.

Svo komum við að fleiri verkefnum t.d bókina um sögu íslenska hestsins sem Gísli B. Björnsson og fleiri eru að vinna að, námskeiðið um sögu hestsins í samstarfi við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands o.fl.

Helsta markmið Sögusetursins er að koma upp sérhæfðir sýningar og rannsóknar aðstöðu á Hólum. Það verður ekki fyrr en sú aðstaða verður komin upp að unnt verður að sinna mjög mörgum mikilvægum verkefnum sem t.d. er varða kynningu á íslenska hestinum og hestamennsku til skólafólks og annarra áhugamanna.

Hafði góð áhrif á Skagafjörð

Árni Gunnarsson, framkvæmdarstj. Leiðbeiningarmiðstöðvarinnar ehf. á Sauðárkróki:

Hestamiðstöð Íslands er eitthvað sem styrkir ekki bara hestamennskuna heldu einnig ímynd byggðarlags, skapar sóknartækifæri til atvinnu.

Það sjást mjög greinileg áhrif Hestamiðstöðvarinnar á Skagfjörð. Má þar nefna undirstöðuna sem var að stofna og byggja reiðhöllina á Svaðastöðum. Það hefur orðið gríðarleg aukning í námskeiðahaldi sem hefur skilað sér í miklum framförum í reiðmennsku. Samstarf við Hólaskóla hefur blómstrað og síðar við sögusetrið.

Laufskálarétt hefur vaxið og öðlast nýja vídd. Með því að spila saman réttinni, atburðum í reiðhöllinni og dansleik hefur tekist að búa til viðburð sem er að skila sér til byggðarinnar.

Verkefnið hefur undirstrikað og styrkt stöðu Skagafjarðar sem Mekka hestamennskunnar á Íslandi. Auk þess sem verkefnið hefur undirstrikað sérstöðu menningar og sögu sem tengist íslenska hestinum í Skagafirði.
Það sem hefði betur mátt fara voru kynningarmál og að skilgreina verkefnið betur. Aftur á móti var heilmargt sem fór vel sem ég ætla ekki að vera þylja upp frekar.

Framtíðin erfðatækni og veðbanki

Ágúst Sigurðsson, formaður verkefnisstjórnar Átaksverkefnis í hrossarækt og hestamennsku:

Þetta verkefni var sett á laggirnar á haustdögum 1999 og hljóðaði samningurinn til fimm ár. Frá byrjun ársins 2000 og út árið 2004. Landbúnaðarráðherra stóð að þessum samningi með félagsskap hestamanna, þ.e.a.s. Bændasamtökum Íslands, LH, FT og FHrB.

Markmið samningsins voru að auka fagmennsku í greininni, aðlaga stærð stofnsins að markaði, ræktunar- og landnýtingarmarkmiðum, styrkja félagslega samstöðu hestamanna og auka arðsemi í greininni.

Það má skipta þessum markmiðum í tvennt. Annars vegar opinber markmið, þar sem við beitum okkur fyrir lagabreytingu eða setningu reglugerða sem eru okkur til hagsbóta, efla nám í hestatengdum greinum og beita okkur fyrir því að afnema sem mest tolla og kvaðir sem hvíla á greininni þá sérstaklega með tilliti til útflutnings. Hins vegar er það skipulag félagskerfis hestamennskunnar. Það er hægt að skipta því markmiði í sex flokka: stefnumótun fyrir félagskerfið, upprunalandið, gæðastjórnun, reiðkennslustigum, kynningar- og markaðsaðstoð, átak og rannsóknir.

Einn starfsmaður hefur starfað fyrir verkefnið á tímabilinu eða um tveggja ára skeið. Hulda Gústafsdóttir vann að ákveðnum verkefnum og vann að stærstum hluta við að búa til og þróa knapamerkjakerfið.

Helstu atriðin sem við unnum að voru nokkur. WorldFengur, sem meginstarfið hefur snúist um og allt fjármagn fyrsta ársins fór í, var okkar stærsta verkefni. Hestavegabréf, eignahafskírteini og eignahaldssamningar áttu að stuðla að meiri fagmennsku í greininni. Það hefur verið eitt töluverðum tíma í stefnumótun félaganna, samstarfsfleti þeirra og hvernig við getum straumlínulagað okkar félagslegu kerfi. Við komum svo einnig að Landsmóti hestamanna ehf., Eiðfaxa ehf., knapamerkjakerfinu, endurskoðun mótakerfis og rannsóknum.

Varðandi þessi verkefni í smáatriðum og hvernig fjarmagnið hefur verið nýtt má lesa um það í árskýrslum sem gefnar hafa verið út og má meðal annars lesa í hrossaræktartímaritinu Frey.

Í fyrstu fóru allir okkar kraftar í WorldFeng. WorldFengur er upprunaættbók íslenska hestsins í miðlægur gagnagrunni. Hann auðveldar allt alþjóðlegt skýrslu hald og gæðastjórnun. Að mínu mati er þetta tæki sem skiptir okkur öllu máli sem forystuþjóð íslenska hestsins.

Hvað árangur varðar þá tel ég mikilvægt hvernig við höfum unnið okkar þann sess sem forystuþjóð íslenska hestsins. Það kemur kannski best fram í því að núna eru Þjóðverja búnir að ákveða að leggja niður sitt gamla dómakerfi. Í vor verða í Þýskalandi eingöngu sýningar eftir okkar staðli og þeim aðferðum sem við höfum lagt til. Það er fyrst og síðast í gegnum þetta átaksverkefni og WorldFeng sem þetta hefur orðið að veruleika.

Það sem ég sé í framtíðinni er að við þurfum að eyða meira púðri í rannsóknir á íslenska hestakyninu. Það þyrfti að kortleggja erfðaþætti hestsins. Það kostar peninga en það er hægt. Það er hlutur sem myndi lyfta okkur í hæðstu hæðir hvað varðar fagleg vinnubrögð. Við erum með gamlar aðferðir og þurfum við að finna upp nýjar. Hreinlega að leita uppi þá erfðaþætti sem valda breytileika í stofninum og nýta okkur þá það í ræktuninni.

Frekari þróun kennsluefnis er eitthvað sem við þurfum að huga að og er það stórmál að mínu mati. Þá er ég ekki bara að líta til Íslands heldur einnig til útlanda. Við þurfum að sinna þessum þörfum sem á okkur dynja. Veit ég t.d. að Ameríkanar vilja taka upp nýja knapamerkjakerfið okkar eins og það leggur sig.

Við þurfum að mennta fólk til þess að sinna rannsóknum og þess háttar. Við þurfum að stuðla að því að æðri menntun í hestafræðum verði að veruleika. Ég sé fyrir mér styrktarsjóð íslenska hestsins sem sér um að styrkja fólk til menntunar í þessum fræðum.

Hvað varðar WorldFeng þá getum við ekki hætt hér. Við verðum að þróa hann og betrumbæta. Þetta er frábært tæki sem við höfum búið til en hann er ekki fullmótaður og er hægt að nýta hann mun betur.

Ferðalög á hestum er eitthvað sem sameinar alla hestamenn. Allir sem eru í hestum hafa unun af því að ferðast. Við þurfum að sinna þessu einnig. Við þurfum að safna í gagnabanka upplýsingum um reiðvegi, GPS punkta og kort.

Það sem mér finnst einnig vera mikilvægt er að koma arði inn í keppnismennskuna. Keppni er að mati margra toppurinn á tilverunni en menn hafa sáralítin ávinning. Við þurfum að koma upp einhverskonar kerfi sem hugsanlega myndi byggjast á einhverskonar veðbankastarfsemi. Þá er ég ekki endilega bara að tala um veðhlaup heldur einnig gæðingakeppni. Módelið er til. Svíar og Norðmenn eru með mjög þróað kerfi sem við gætum hugsanlega nýtt okkur. Svo er náttúrulega aukaávinningi sem hlytist af þess sem er endurvakning á skeiðinu sem er eitt aðalmerki íslenska hestsins.

Það eru mörg verk sem bíða og vona ég að ekki verði staðarnumið þegar þessum samningi er lokið.

Hagnaður Eiðfaxa

Jónas Kristjánsson útgáfustjóri:

Þegar Eiðfaxi var kominn í þrot um mitt ár 2002, tóku þrír aðilar höndum saman um að bjarga tímaritinu og fréttavefnum, sem þeir töldu vera meðal hornsteina hestamennskunnar í landinu og stöðu íslenskra hesta í heiminum. Þetta voru Göran Montan, sem er í félagi við Ólaf Hafstein Einarsson á Hvoli í Ölfusi, Hestamiðstöðin og Átaksverkefnið.

Í kjölfar samkomulags þessara kjölfestuaðila í lok september 2002 var Hrólfur Ölvisson fenginn í október til að fara inn í reksturinn og kynna sér ástandið. Í ljós kom, að tap ársins stefndi á 30 milljónir króna. Með samningum við lánardrottna tókst að koma tapi ársins 2002 niður í 23 milljónir.

Í kjölfar þessara aðgerða og aukningar hlutafjár var ný stjórn mynduð í Eiðfaxa 31. janúar 2003. Hana skipa Ólafur H. Einarsson, Gunnar Dungal, Hrólfur Ölvisson, Ágúst Sigurðsson og Sveinbjörn Eyjólfsson. 20. febrúar var ég svo ráðinn útgáfustjóri.

Starfsliði Eiðfaxa var fækkað úr 11 í 5, þar af 4 nýir. Ný ritstjórnarstefna var tekin upp í apríl. Dregið var úr afþreyingarefni og lögð meiri áhersla á fræðsluefni. Efnismagn var aukið um 20-30%. Til að jafna á móti þyngra efnisvali var uppsetningu blaðsins breytt í líflegra horf.

Árangurinn er sá, að áskrifendur voru orðnir fleiri í árslok en þeir voru við upphaf breytinganna. Auglýsingatekjur voru orðnar mun meiri en á sama tíma á fyrra ári. Samanlagt leiddu aðgerðir til algers viðsnúnings í rekstri fyrirtækisins.

Í stað 23 milljón króna taps árið 2002 varð 3 milljón króna hagnaður af rekstri án fjármagnsliða árið 2003 og 1 milljón króna hagnaður að fjármagnsliðum meðtöldum. Eiðfaxi er kominn fyrir vind.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2004.