Nú vorkenni ég hestunum mínum, sem bera mig upp fjöll í 26 stiga hita í forsælu. Þeir bera sig samt vel og eru fljótir að jafna sig. Mér líður svo sem vel á hestbaki, því að ferð jafngildir vindi. En fell nánast yfirlið í áningum, þegar lognið hellist yfir mig. Í dag fórum við yfir þjóðveg. Þar tók ég hnakkinn af, setti hestinn í reksturinn og settist sjálfur örmagna í vegkantinn. Komst svo við illan leik í sturtu og vatnskrana í náttstað. Er óendanlega miklu ófullkomnari skepna en hesturinn. Hann kann bezt við sig í tíu stiga hita, en lætur bjóða sér miklu hærri tölur án þess að gefast upp.