Heybrókaþjóð

Greinar

Biskup hefur sett séra Örn Bárð Jónsson af sem ritara kristnihátíðarnefndar í kjölfar bréfs frá forsætisráðherra um fræga smásögu Arnar, “Íslenska fjallasölu hf.”, og bætir gráu ofan á svart með orðhengilshætti um, að hann hafi ekki vikið Erni úr ritarastarfinu.

Biskupinn hefur með þessu sýnt landlægan undirlægjuhátt, sem einkennir marga þá, sem þurfa að eiga samskipti við forsætisráðherra, enda virðist sá síðarnefndi fremur en ekki hvetja til slíkrar framgöngu, svo sem sjá má af nótuskrifum hans í ýmsar áttir.

Eins og aðrir Íslendingar á biskupinn erfitt með að gera greinarmun á eðlilegum boðskiptum í lýðræðisþjóðfélagi og tilskipunum þeim, sem einvaldskonungar gáfu út fyrir nokkrum öldum. Eins og margir aðrir skelfur hann, þegar hann heyrir forsætisráðherra nefndan.

Í gær birtist í DV lesandabréf frá Íslendingi, sem hefur búið þrjá vetur í Bretlandi og nefnir ýmis dæmi um misjafnt stjórnarfar hér og þar. Endar hann grein sína á orðunum: “Íslendingar geta lært mikið af Bretum, því þeir búa við lýðræði í flestum greinum.”

Við búum við stjórnskipan, sem við höfum ekki unnið fyrir eða ræktað, heldur fengið flutta inn. Bretar eru andstæða okkar að þessu leyti. Þeir ræktuðu með sér lýðræði á löngum tíma í baráttu við konungsvaldið og fluttu það síðan með sér til annarra enskumælandi ríkja.

Norðurlandabúum, öðrum en Íslendingum, hefur tekizt öðrum þjóðum betur að tileinka sér lýðræði og haga sér eftir innihaldi þess. Það sést bezt af því, að ráðherrar taka ábyrgð á ráðuneytum sínum og segja af sér, ef ráðuneytið verður uppvíst að gerræði.

Hér segir enginn af sér, enda ber enginn ábyrgð á neinu. Í stað réttra boðleiða er stjórnað með símtölum og nótum að hætti forsætisráðherra. Þetta hentar þjóð, sem er ekki mynduð af frjálsum borgurum, heldur þegnum, sem skríða hver um annan þveran fyrir yfirvaldinu.

Bráðum verður gengið fram hjá góðum umsækjendum um starf forstjóra flugstöðvarinnar á Keflavíkurvelli. Þá verður stýrimennska hjá stórfyrirtækjum og alþjóðastofnunum einskis metin í samanburði við flokksskírteini annars, sem á skattsvik og skjalafals að baki.

Hin séríslenzka útgáfa lýðræðis er eins konar ráðherralýðræði, þar sem tíu eða tólf smákóngar eru einræðisherrar hver á sínu sviði, framleiða út og suður tilskipanir, svonefndar reglugerðir, og láta hagsmunaaðila viðkomandi sviðs reyna að keppa um hylli sína.

Þetta endurspeglast í þeim þáttum atvinnulífsins, sem tengdust eru ríkiskerfinu. Þannig færði stjórn Kaupfélags Þingeyinga Kaupfélagi Eyfirðinga mjólkursamlag á silfurfati, þótt sala þess á frjálsum markaði hefði hindrað umtalsvert fjárhagstjón þingeyskra bænda.

Í öllum tilvikum komast stórir og smáir kóngar upp með það, sem þeir eru að gera, af því að Íslendingar eru upp til hópa heybrækur, afkomendur fólks, sem kynslóðum saman var kúgað af sýslumönnum og stiftamtmönnum og var síðan gefið frelsi á dönsku silfurfati.

Ef brezkir ráðherrar og aðrir áhrifamenn höguðu sér eins og íslenzkir starfsbræður, yrðu hreinlega uppþot þar í landi. Hér muldra menn í barm sér, en gera ekkert í málinu og kjósa síðan kúgara sína aftur á fjögurra ára fresti. Spillingin er þjóðinni sjálfri í blóð borin.

Þegar biskupinn fær skjálfta af lestri orðsendingar frá stórkónginum og tekur að sér skítverk fyrir hann, er hann aðeins að fylgja fordæmi þrælaþjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV