Hin hliðin á hjálpinni

Greinar

Að minnsta kosti helmingur innfluttra hjálpargagna í Sómalíu kemst ekki til skila. Sumir hafa nefnt enn hærra hlutfall og taka þá með í reikninginn matvæli, sem kaupmenn komast yfir og læsa inni til að geta selt í smáum skömmtum á háu verði á svörtum markaði.

Ekkert bendir til, að íslenzkt hjálparstarf sé svo einstakt, að það lúti öðrum lögmálum en aðstoð annarra þjóða til Sómalíu. Þess vegna eru forustumenn íslenzka hjálparstarfsins á hálum ís, þegar þeir segja beinlínis, að hjálpin frá Íslandi komist öll til skila.

Ríkisstjórnir Vesturlanda hafa til skamms tíma vanrækt að sjá um ytri skilyrði þess, að vestrænt hjálparstarf í Sómalíu komi að öðru gagni en að friða samvizku fólks á Vesturlöndum, er lítur á aðild sína að hjálpinni sem eins konar blint guðsþakkarverk að gömlum sið.

Þetta kann að vera að breytast, því að Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusamfélagið hafa ákveðið að senda fámennt herlið til Sómalíu til að vernda hjálpargögn gegn óaldarflokkum, sem hingað til hafa tekið að minnsta kosti helmings toll af öllum hjálpargögnum.

Brezka tímaritið Economist hefur lagt til, að reynt verði að komast hjá þessari skattlagningu bófanna með því að kaffæra Sómalíu í mat, svo að hann verði verðlaus og allir hafi nóg af honum. Rauði krossinn og aðrar hjálparstofnanir hafa staðið gegn þessari hugmynd.

Í rauninni á hjálparstarfið í Sómalíu þátt í að halda úti óaldarflokkunum, sem hafa nóg að bíta og brenna vegna yfirtökunnar á hjálpargögnum og vegna tekna, sem þeir hafa af sölu þeirra. Þessar tekjur eru sumpart notaðar til vopnakaupa til enn frekara ofbeldis.

Þannig getur hjálparstarf að sumu leyti snúizt upp í þverstæðu sína, eins og raunar hefur líka gerzt í Júgóslavíu. Þar auðveldar tilvist hjálparstarfsins Serbum að framkvæma þjóðahreinsunina. Hjálparstofnanir taka við ábyrgðinni á fólkinu, sem hrakið er brott.

Þetta er mikið og vaxandi vandamál, því að ribbaldar læra alltaf betur og betur að leika á hjálparstofnanir og misnota þær. Brýnt er, að vestrænar stofnanir fari að skoða betur, hvernig og hvenær eigi að hjálpa fólki, svo að áhrifin séu ekki þau að gera illt verra.

Löng harmsaga er af því, einkum í Afríku, að vestrænt þróunarstarf hefur haft þveröfug áhrif. Eitt frægasta dæmið er stuðningur Norðurlanda við Tanzaníu, sem hefur stuðlað að stjórnarfari, er hefur gert þetta eðlisríka land að einu af eymdarsvæðum álfunnar.

Í Sómalíu er þjáning svo gífurleg, að erfitt er að tala með rökum um hina hliðina á hjálparstarfinu. Ef til vill er bezt að loka augunum og gefa til að friða samvizkuna. En raunveruleg verður hjálpin fyrst, þegar Vesturlönd hafa beitt hervaldi til að gera hana kleifa.

Hins vegar hafa aðstandendur söfnunar á Íslandi talað svo óvarlega um árangur starfs síns, að nauðsynlegt er að benda á, að í nálægum löndum vita menn betur og ræða opinberlega um, hvernig megi læra af reynslunni og standa betur að málum nú og í náinni framtíð.

Telja má ljóst, að Serbar nota hjálparstarfið í Bosníu til að ýta ábyrgðinni af landflótta fórnardýrum sínum á herðar alþjóðlegra stofnana og að óaldarflokkar Sómalíu lifa beinlínis á hjálparstarfinu og nota það til að halda sveltandi almenningi í heljargreipum sínum.

Menn forðast að viðurkenna hina köldu staðreynd, að vestræn mannúð þrífst ekki, nema kaldrifjaðir morðingjar fái að horfa um leið inn í vestræn byssuhlaup.

Jónas Kristjánsson

DV