Hin hraða leið til heljar

Greinar

Ríkisstjórn hvítra manna í Suður-Afríku er farin á taugum. Hún sigar stjórnlausri lögreglu á svart fólk, lokar það inni hundruðum saman og setur bann á fréttaflutning hvítra blaðamanna í landinu. Hún flýtir óhjákvæmilegri valdatöku svarta meirihlutans.

Atburðarásin í Suður-Afríku hefur verið nákvæmlega eins og spáð var í leiðara þessa blaðs fyrir rúmlega hálfu ári. Hvíti minnihlutinn í Suður-Afríku er ófær um að sjá, að boðskapur er letraður á vegginn. Ríkisstjórnin hagar sér eins og sært og tryllt villidýr.

Hinn óttaslegni forseti Suður-Afríku er drýgindalegur og segist sýna heiminum, að hvítu mennirnir þar í landi séu engir aumingjar. Röksemdafærsla af því tagi ber dauðann í sér, því að önnur atriði ráða framtíð hvítra manna í þessu volaða landi.

Til eru hvítir menn í Suður-Afríku, sem skilja, að hinn fjölmenni svarti meirihluti hlýtur að taka völdin í landinu með góðu eða illu. Þeir eru þó fáir og áhrifa lausir með öllu. Botha forseti hefur meiri vanda af fasistum í hópi stjórnarandstæðinga.

Blóðbaðið í Suður-Afríku hefur til þessa eingöngu kostað svarta menn lífið. Fyrr eða síðar kemur að því, að þeir grípa til vopna og færa hryðjuverkin inn í hverfi hvítra manna. Borgarastyrjöldin getur hæglega endað með, að hvítu fólki verði útrýmt í landinu.

Stefna ríkisstjórnar hvítra manna leiðir eindregið til þeirrar niðurstöðu. Stjórnin tekur ekki mark á neinum góðum ráðum. Hún hefur gróflega hunzað tilraunir ráðamanna brezka samveldisins til að koma á samtali milli hvítra og svartra manna í Suður-Afríku.

Um þessar mundir líta Thatcher, forsætisráðherra Bretlands, og Reagan, forseti Bandaríkjamanna, út eins og kjánar, sem skilja ekki lögmál lífsins. Tilraunir þeirra til að styðja ríkjandi ástand í Suður-Afríku eru örugglega dæmdar til að mistakast með öllu.

Að vísu skiptir litlu, hvort vestrænar þjóðir setja Suður-Afríku í algert viðskiptabann eða halda áfram hinu hálfgerða banni, sem gilt hefur um nokkurt skeið. Örlög fólks í Suður-Afríku ráðast ekki af ákvörðunum, sem teknar eru í útlöndum. Þau ráðast heima.

Efnahagur Suður-Afríku stendur og fellur með sex milljónum svartra verkamanna. Þeir ákváðu um daginn að sitja heima til að minnast þess, að tíu ár eru liðin frá hryðjuverki ríkisstjórnarinnar í Soweto. Það verður ekki síðasta atlaga þeirra að efnahagskerfinu.

Fráleitt er, að öflugustu ríki Vesturlanda óhreinki sig á stuðningi við hina trylltu ógnarstjórn hvítra manna í Suður-Afríku. Framkoma Thatchers og Reagans hjálpar ekki hvítu fólki í Suður-Afríku. Hún skaðar málstað Vesturlanda, þegar hinir svörtu taka völdin.

Sigraðar eru kenningar um, að Vesturlönd verði að halda stjórnmála- og viðskiptatengslum við Suður-Afríku til að sefa hvíta minnihlutann og ná fram umbótum.

Hvíti minnihlutinn tekur ekki mark á slíku og stefnir óafvitandi að blóðugum úrslitum. Hörmulegt er að horfa á þessa atburðarás. Í Suður-Afríku er skynsemin á undanhaldi. Áhrif hvítra fasista fara vaxandi og sáttasinnar sæta aðkasti sem ræflar og föðurlandssvikarar. Þetta er atburðarás, sem stefnir eindregið að tortímingu ríkjandi valdakerfis.

Verst er, að ekkert er hægt að gera. Viðskiptaþvinganir skipta engu. Við verðum að sætta okkur við að vera aðeins áhorfendur að hinum hrikalega harmleik.

Jónas Kristjánsson

DV