Athyglisverðast við nýja fjárlagafrumvarpið er, hversu rúm fjárráð ríkinu eru ætluð á næsta ári. Þetta er raunar gömul saga. Ráðherrar togast á um smáupphæðir, en leyfa orðalaust stórum fjárhæðum að einkenna fjárlögin og stjórna háum niðurstöðutölum þeirra.
Nokkrir belgdir liðir ráða því, að ríkisstjórnin getur ekki í þessu frumvarpi frekar en í hinum fyrri dregið saman segl hins opinbera, svo að meira verði til ráðstöfunar heimila og fyrirtækja landsins og að minna þurfi að taka af dýrum lánum í útlöndum.
Samkvæmt frumvarpinu á einkaneyzla heimilanna á hvern mann ekki að fá að aukast á næsta ári. Í heild á einkaneyzlan að aukast um 1,5%, sem er lítið meira en íbúafjölgunin. Þetta hljóta að teljast dapurlegar fréttir hinum mörgu, sem hafa hert sultarólina í nokkur ár.
Ekki er síður alvarlegt, að frumvarpið gerir ráð fyrir, að fjárfesting í atvinnulífinu dragist saman um 2,7%.. Þar með er hægt á verðmætauppsprettu framtíðarinnar. Og það veitir broslega innsýn í hugarheim ráðamanna okkar, að samt á fjárfesting í landbúnaði að aukast um 10%.
Þótt frumvarpið þrengi þannig að heimilum og atvinnulífi, ætlar það ríkinu að verða svo frekt til fjörsins á næsta ári, að það taki 2724 milljónir króna að láni í útlöndum og það á raunvöxtum, sem komnir eru upp í 5,7% á ári og virðast ekki ætla að léttast á næstunni.
Ætla má, að ríkið geti dregið hastarlega úr framkvæmdum sínum og gjafmildi, þegar illa árar. Ekki sízt þar sem framboð á atvinnu virðist nægja til að mæta samdrætti hjá ríkinu. Samt þykjast ráðherrarnir ekki geta gert betur en að stöðva ríkisútþenslu undanfarinna ára.
Þegar er frægt, að á þessum svokölluðu sparnaðartímum skuli frumvarpið gera ráð fyrir aukningu umfram verðbólgu á fjárveitingum til vegamála. Það er dæmi um. hversu erfitt er að hægja á framkvæmdagleði ráðamanna, þótt peningar séu í rauninni alls ekki til.
Gert er ráð fyrir, að 1000 milljónir króna fari í vegi á næsta ári og 950 milljónir til viðbótar í brýr og ræsi. Þótt þetta séu nytsamlegar framkvæmdir, ætti að vera ljóst öllum öðrum en atkvæðakaupendum, að töluverðu af þeim megi fresta, þegar buddan er tóm.
Eftir offjárfestingu orkumála á undanförnum árum er gert ráð fyrir að halda áfram á sömu braut á næsta ári og verja 2160 milljónum til virkjana og veitna, þar af 740 milljónum til Landsvirkjunar og 700 milljónum til hitaveitna. Þessar framkvæmdir verða sífellt arðminni.
Engum nema stjórnmálamönnum dettur á auraleysistímum í hug að verja 1600 milljónum til opinberra bygginga af ýmsu tagi, þar af 700 milljónum til flugstöðvar á Keflavíkurvelli. Á slíku her að hægja. þegar lántökur í útlöndum eru komnar út yfir allan þjófabálk.
Dapurlegast við frumvarpið er, að það heldur áfram dýrkun heilagra kúa og kinda. 1827 milljónir króna eiga að renna til beinna styrkja, útflutningsuppbóta og niðurgreiðslna í hinum hefðbundna landbúnaði sauðfjár og nautgripa. Hver einasta þessara króna er glötuð.
Ef ríkisstjórnin hefði þorað að skera af hinum stóru summum, sem hér hafa verið nefndar, þyrfti hún ekki að standa andspænis nýjum lántökum, stöðnun í lífskjörum þjóðarinnar og samdrætti í uppbyggingu atvinnuveganna. Hún þorði ekki og þóttist vera rík.
Jónas Kristjánsson
DV