Samtök neytenda hér á landi hafa verið að braggast allra síðustu árin. Hörð viðbrögð þeirra við einokun eggja og kjúklinga er hið snaggaralegasta, sem hefur sézt til þeirra. Viðbrögðin kunna að vera tímanna tákn um, að íslenzkir neytendur láti ekki lengur sparka í sig.
Mikil verðbólga hefur stuðlað að tregum skilningi neytenda á verðlagi og dregið úr samtakamætti þeirra. Fólk hefur litið afstæðum augum á verð, sem var eitt í gær, annað í dag og verður hitt á morgun. Samanburður verðs hefur jafnan reynzt neytendum erfiður.
Þetta er raunar eðlilegt á verðbólgutímum, þegar gengi einstaklinga og fyrirtækja ræðst fremur af aðgangi þeirra að gæludýrafóðri, það er að segja að ódýru fjármagni með niðurgreiddum vöxtum, heldur en af hefðbundinni útsjónarsemi í meðferð peninga.
Viðbrögð neytenda við tæplega þreföldun eggjaverðs á öndverðum þessum vetri gáfu þó ekki tilefni til bjartsýni. Úthald þeirra reyndist vera nákvæmlega ein vika. Eftir einnar viku ládeyðu í eggjasölu færðist salan aftur í það horf, sem verið hafði fyrir verðsprenginguna.
Neytendasamtökin hafa nú kosið að treysta minna á almenning og þeim mun meira á þá kaupmenn, sem hafa góða reynslu af að bjóða lágt verð. Margir þeirra hafa fallizt á að neita að kaupa egg og kjúklinga inn í búðir sínar á hærra verði en samtökin telja hæfilegt.
Eftir er að sjá, hvort margir kaupmenn bili á taugum og taki að sér að selja dýru eggin og kjúklingana í von um, að ístöðuleysi íslenzkra neytenda dragi þá til viðskipta. Tilfærsla viðskipta frá hinum, sem standa með neytendum, mundi slæva bitið í hnífi samtakanna.
Auðvitað munu margir neytendur taka eftir, hvaða kaupmenn það eru, sem vilja leggja á sig eggja- og kjúklingabannið vegna samstöðu með neytendum og samtökum þeirra, og hvaða kaupmenn það eru, sem standa með sívaxandi kúgun, er neytendur hafa orðið að sæta.
Þjóðfélagslega er mjög mikilvægt, að sem flestir neytendur skipi hópinn, er stendur með þeim kaupmönnum, sem standa með neytendum. Ef það gerist í eggja- og kjúklingastríðinu, sem nú geisar, markar það þáttaskil í sögu verzlunar, þjónustu og neyzlu á Íslandi.
Ef stjórnmálamenn okkar sjá neytendur loksins verða að afli, munu margir þeirra snúa við blaðinu. Hingað til hafa þeir fyrirlitið neytendur, jafnvel þótt þeir hafi orðið að sækja fylgi til þeirra. Þingmenn Reykjavíkur svæðis og sjávarsíðu hafa aldrei stutt neytendur.
Sem dæmi um ástandið má nefna, að ekki er langt síðan stærsti stjórnmálaflokkurinn gerði að formanni sínum sveitaþingmann, sem er og verður upptekinn við að vernda kartöfluflöguverksmiðju og gæta annarra hliðstæðra hagsmuna hins hefðbundna landbúnaðar.
Framsóknarflokkurinn hefur oft verið hengdur af almenningsálitinu fyrir að hafa forustu í kúgun íslenzkra neytenda. Það er ekki fyllilega sanngjarnt, því að svo lengi, sem munað verður, hafa Alþýðubandalag og Kvennalisti yfirboðið hann í þjónkun við landbúnað.
Í ríkisstjórninni sömdu Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur bróðurlega um, hversu langt skyldi ganga í þjónkun við landbúnað og kúgun neytenda. Samkomulagið féll á yfirboði Sjálfstæðisflokks, sem fékk framgengt, að orðið yrði við öllum kröfum landeigenda.
Ef neytendur og kaupmenn standa sig að þessu sinni, er valdastéttin hefur gagnsókn, munu pólitíkusarnir fá hland fyrir hjartað og þáttaskil verða á skákborðinu.
Jónas Kristjánsson
DV